Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 12. maí 2000 kl. 14:42

Verum jákvæð í sumar - segir knattspyrnuforystan

Knattspyrnudeild Keflavíkur hélt í gærkvöld opinn fund um málefni Landssímadeildarliðs Keflavíkur og komandi keppnistímabil. Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar, tók fyrstur til máls og kynnti Landssímadeildina í sumar, en fyrsti leikur liðsins verður fimmtudaginn 18. maí á heimavelli gegn Breiðablik. Rúnar óskaði eftir stuðningi við liðið jafnt þegar vel gengur sem illa. Hann sagði fæsta áhorfendur hafa verið á Keflavíkurleikjunum af öllum liðum í Landssímadeildinni á síðasta ári. Þá hvatti hann fólk til að vera jákvætt á leikjum sumarsins þar sem leiðinda „stimpill“ sé á stuðningsmönnum Keflavíkur að vera leiðinlegir áhorfendur, en það sé félaginu ekki til sóma að vera með svífirðingar í garð dómaranna og gestaliðanna. Gunnar Oddsson, fyrirliði liðsins, tók þá til máls og kynnti leikmannahóp Keflavíkur í sumar og vakti athygli á því að fjórtán leikmenn af 27 eru á aldrinum 17-21 árs. Unglingastarfið hefur skilað af sér öflugum ungum leikmönnum sem verulega séu farnir að banka á dyr meistaraflokks liðsins. Sævar, gjaldkeri knattspyrnudeildar, kynnti þá undirbúning að nýju hlutafélagi, Keflavík hf, en stofnun þess er áætluð um mánaðamótin maí-júní. Hlutafélaginu er ætlað að styðja fjárhagslega við bakið á knattspyrnudeild Keflavíkur, en er þó sjálfstætt rekið og ótengt rekstri knattspyrnudeildar. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari tók til máls og hvatti til jákvæðni í garð leikmanna og allra þeirra sem standa að knattspyrnunni í Keflavík. Hann varaði menn við því að vera að rakka menn niður í stúkunni, þar sem maður veit aldrei hver stendur við hliðina á manni. Hann tók dæmi úr knattspyrnunni bæði hérlendis og erlendis. Stuðningsmenn liðsins tóku undir með Atla og yfirgáfu menn fundinn glaðir í bragði og jákvæðir í garð komandi sumars.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024