Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 10. janúar 2001 kl. 10:24

Vertíðin byrjaði með látum hjá Stafnesi KE

Áhöfnin á Stafnesi KE byrjaði netaúthaldið eftir áramótin við Ingólfshöfða og segja má að þar hafi hún dottið í lukkupottinn. 42 tonn af rígaþorski og stórufsa er hörkugóður afli og Oddur Sæmundsson skipstjóri segist vera bjartsýnn á að vertíðin verði góð.
„Þetta byrjaði með látum hjá okkur. Við fengum 42 tonn af fiski í fyrstu lögnina, alls 150 net, og þetta var allt saman stærsta gerð af fiski. Uppistaða aflans var þorskur yfir tíu kílóum að þyngd og svo vorum við með 15 tonn af stórufsa“, segir Oddur í samtali við InterSeafood.com.
„Aflinn hjá okkur datt reyndar strax niður en við höfum verið að fá fimm til sjö tonn af fiski á dag og ég er nokkuð viss um að óveðrið, sem spáð er nú undir lok vikunnar, á eftir að hrista vel upp í þessu. Það er spáð 12 metra ölduhæð við Reykjanesið á miðnætti nk. fimmtudag eða aðfararnótt föstudagsins og þá verður jafnframt stórstreymt. Það er bara gott fyrir veiðarnar að fá þessa veðrabreytingu en auðvitað er hætta á því að það geti orðið mikil flóð við suðvesturströndina“, segir Oddur en hann segir ýmislegt benda til þess að töluvert sé af fiski á ferðinni.
Að sögn Odds hafa línutrillur úr Sandgerði og Keflavík hafi verið að fá mjög góðan afla að undanförnu og það lofi góðu um framhaldið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024