Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Veröld vættanna ætlað að ná betur til barna og ungmenna
Grunnskólanemendur í 1.-3. bekk í Hópsskóla í Grindavík og Stóru Vogaskóla fengu fyrstu eintökin af Veröld vættanna. Bókinni fylgir bæði kort af Reykjanesinu og litabók.
Laugardagur 27. mars 2021 kl. 06:03

Veröld vættanna ætlað að ná betur til barna og ungmenna

Reykjanes Geopark hefur í samvinnu við Markaðsstofu Reykjaness og Þekkingarsetur Suðurnesja unnið að þróun talsmanna fyrir Reykjanes með styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Verkefnið kallast Veröld vættanna en markmið þess er að ná betur til barna og ungmenna í fræðslu um náttúru Reykjanes Global Geopark. Nýlega fengu grunnskólanemendur í 1.–3. bekk á Suðurnesjum bókina afhenta að gjöf.

Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur, var fengin til þess að útbúa persónulýsingar fyrir fjórar persónur ásamt því að semja drög að handriti að baksögu. Silvia Pérez og Guðmundur Bernharð, grafískir hönnuðir, hafa teiknað talsmennina og hannað myndheim þeirra. Talsmennirnir eiga fyrst og fremst að höfða til barna en um leið er vonast til þess að skilaboðin skili sér jafnframt til allrar fjölskyldunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Talsmaðurinn mun auðvelda öll samskipti við börn og auka þannig staðarvitund þeirra og þekkingu á umhverfismálum. Slíkt kemur til með að vera hvatning til hreyfingar og útivistar, auka stolt af heimaslóðum, styrkja rætur þeirra og tengingu við svæðið. Talsmennirnir munu vonandi auka stolt allra íbúa á Suðurnesjum í framtíðinni ef vel tekst upp og verða áberandi og einkennandi fyrir svæðið.

Reykjanes UNESCO Global Geopark hefur einnig gefið út veglega bók um Reykjanes þar sem finna má fjölda ljósmynda af einstökum Reykjanesskaganum og tilvísanir í menningu og sögu þessa landshluta sem kalla má hliðið inn í landið. Í bókinni er tvinnað saman náttúru og landslagi, menningu og fólki sem og nýsköpun og atvinnu til að gefa nokkra mynd af þessu samfélagi suður með sjó.

Bókin gerir tónlistararfi Suðurnesjamanna góð skil en þar eru birtir textar vinsælla dægurlaga allt frá sjöunda áratugnum og fram til dagsins í dag en þar má nefna Rúnar Júlíusson, Villa Vill, Jóhann Helgason, Valdimar og Of Monsters and Men.