Verksmiðjan sú fyrsta sinnar tegundar
Opnunarhátíð verksmiðju íslenska hátæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) við Svartsengi var haldin í gær þann 12. apríl. Viðstaddir voru umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir sem flutti ávarp, þingmenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn, sendiherrar erlendra ríkja á Íslandi og fjöldi innlendra og erlendra gesta.
Viðstöddum var boðið í skoðunarferð um verksmiðjuna. Þá voru til sýnis þrír kappakstursbílar sem nota metanóleldsneyti frá verksmiðjunni, Range Rover rallýbíll frá Tomcat, Ford Mustang götukappakstursbíll og Pontiac Tempest kvartmílubíll. Bílarnir nota háa blöndu metanóls og bensíns til þess að auka spyrnu og kraft bílanna.
Framkvæmdum við verksmiðjuna var lokið í nóvember á síðasta ári og hefur tilraunaframleiðsla verið hafin. Verksmiðjan er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem framleiðir eldsneyti með því að endurvinna koltvísýring. Öll orka og koltvísýringur til framleiðslunnar eru fengin úr jarðvarma frá orkuveri HS Orku í Svartsengi. Notkun eldsneytis úr endurunnum koltvísýringi í stað jarðefnaeldsneytis dregur úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Íslendingar hafa nú innleitt skilyrði um minni losun koltvísýrings frá samgöngum og kvaðir um að 10% af eldsneyti verði af vistvænum uppruna fyrir lok þessa áratugar.
Heimilt er að blanda allt að 3% af metanóli við bensín fyrir hefðbunda bensínbíla, í samræmi við íslenskar og evrópskar reglur og staðla.
Carbon Recycling International (CRI) var stofnað árið 2006. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 27, Reykjavík. CRI hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum og þróun á framleiðsluaðferðum og vistvænu metanóli á rannsóknarstofu þess við Höfðabakka í Reykjavík. Framkvæmdir við eldsneytisverksmiðjuna í Svartsengi hófust í lok árs 2010. Aðalverktaki við verkið var ÍAV og verkfræðistofan Mannvit hafði yfirumsjón með hönnun. Fjöldi annarra erlendra og innlendra verktaka hefur einnig komið að verkefninu.
VF-Myndir EJS