Verkfallsaðgerðir flugvirkja Icelandair: Alvarlegt högg á ferðaþjónustu á háönn
Samtök ferðaþjónustunnar lýsa þungum áhyggjum vegna verkfallsaðgerða flugvirkja Icelandair sem raskar flugstarfsemi fyrir tugi þúsunda farþega með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ferðaþjónustan er sérstaklega viðkvæm fyrir slíkum truflunum og eru þær afar slæmar fyrir ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannalands. Ferðamenn forðast almennt svæði þar sem búist er við slíkum truflunum.
Íslendingar þóttust hafa sloppið bærilega frá nýliðnum náttúruhamförum. Það er því óþolandi að íslensk ferðaþjónusta sé enn einu sinni sett í uppnám og nú af völdum starfsmanna sem telja sig eiga kröfu á meiri launahækkunum en allur fjöldinn og eru í þeirri í stöðu að stöðva flug til og frá landinu. Þetta er því alvarleg staða fyrir ferðaþjónustuna nú í upphafi háannar en það er mjög litið til þess að gott ferðasumar geti skapað dýrrmæt störf og gjaldeyristekjur sem munar um í erfiðu efnahagsástandi.
Samtökin treysta því að þetta vandamál verði leyst nú þegar.
Flugvélar Icelandair fóru ein af annarri frá Leifsstöð um kl. 10 í morgun en þá var þessi mynd tekin. VF-mynd/pket.