Verkfall tónlistarkennara hefur gríðarlegar afleiðingar
Skólastjóri óttast brottfall nemenda og kennara
Verkfalli tónlistarkennara er nú lokið eftir fimm vikna kjarabaráttu. Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, segir að verkfallið eigi líklega eftir að draga verulegan dilk á eftir sér. Nú þegar hafi nokkrir nemendur hætt námi og eins hefur riðlast verulega nám hjá eldri nemendum skólans sem ljúka áttu námi eða mikilvægum stigsprófum. Hann telur að hætta sé á frekara brottfalli, bæði hjá nemendum sem og kennurum.
„Þetta er bara búið að vera alveg svakalegt og alveg með ólíkindum að sveitafélögin hafi ekki samið fyrr en eftir fimm vikna verkfall,“ segir Haraldur. Hann segir tjónið gríðarlegt af völdum verkfallsins. Mikið hafi verið rætt um stöðu barna sem stunda nám við skólann, en Haraldur segir stóran hóp nemenda gleymast í umræðunni. Í skólanum séu nemendur á öllum aldri sem margir hverjir nýti sér tónlistarnám til stúdentsprófs eða munu sækja tónlistarnám á háskólastigi á næstunni.
„Afleiðingarnar eiga eftir að koma í ljós. Það er ekki víst að allir þeir nemendur sem ætluðu sér að útskrifast nái því núna.Prófin sem fyrirhuguð voru í haust falla öll niður.“ Foreldar barna í tónlistarnámi hafi margir hverjir tjáð skólastjóranum að börnin þeirra hafi gengið þungum skrefum að hljóðfærum sínum á meðan verkfallinu stóð. Flestir þeir nemendur standi hreinlega á núllpunkti þegar nám er hafið að nýju.
Haraldur segir að komið hafi verið fram við tónlistarkennara af gríðarmikilli vanvirðingu í þessum samningaviðræðum. Kennarar hafi því hreinlega hugsað með sér hvort þeir vilji hreinlega tilheyra þessari stétt áfram eða vinna fyrir þessa vinnuveitendur sem sýni slíka vanvirðingu. Kennsla er hafin á ný og segir skólastjóri að jafnt kennarar og nemendur hafi brosað út að eyrum á mánudag þegar endurfundir voru. Haraldur telur að það muni taka tíma að ná áttum en stefnt er að því að koma nemendum á rétt ról á næstu dögum. Svo stendur til að halda jólatónleika á næstunni. „Eftir áramót þarf svo að bretta upp ermarnar því mikið starf er fyrir höndum,“ sagði skólastjórinn að endingu.
Tónlistarskólakennarar áttu í fimm vikna viðræðum við Launanefnd sveitarfélaga án árangurs. Kennarar sem tilheyra Félagi Tónlistarskólakennara (FT) voru í verkfalli. Annar hópur tónlistarskólakennara eru félagar í Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) en þeir sömdu í lok síðasta mánaðar. Í Tónlistarskóla Reykjanebæjar starfa 44 tónlistarkennarar, þar af voru 28 í verkfalli en 16 í störfum (félagar í FÍH).
Víkurfréttir litu við í tónlistarskólanum þegar starf hófst að nýju eins og sjá má á myndum hér að neðan.
Kennarar sameinaðir á ný. Annar var í verkfalli en hinn við vinnu síðustu fimm vikurnar.