Verkfall bitnar á tæplega 3000 nemendum
Um 2900 grunnskólabörn og 240 kennarar úr 8 grunnskólum á Suðurnesjum munu sitja heima á mánudagsmorgun ef til verkfalls kennara kemur. Mikið ber í milli samninganefnda kennara og launanefndar sveitarfélaga en stífar viðræður hafa verið í húsi sáttasemjara síðustu sólarhringa. Ef ekki tekst að semja um helgina er ljóst að nemendur og kennarar munu ekki mæta til skóla sinna á mánudagsmorgun.
Ingibjörg Ólafsdóttir verkefnisstjóri hjá FFGÍR (Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ) segir að félagið hafi skrifað undir sameiginlega ályktun Heimilis og Skóla vegna málsins. „Við höfum ekki viljað taka beina afstöðu til kjaradeilunnar en við hvetjum alla til að reyna að ná samkomulagi svo ekki komi til verkfalls. Það mun fyrst og fremst bitna á börnunum og fjölskyldunum, auk þess sem það mun hafa áhrif á alla króka og kima samfélagsins. Við hörmum það mjög ef til verkfalls kemur,“ sagði Ingibjörg í samtali við Víkurfréttir.
Landssamtökin Heimili og Skóli hafa sent Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga opið bréf sem ber yfirskriftina „Hvers eiga börnin að gjalda?“ Í bréfinu segir meðal annars að margföldunaráhrif verkfalls gæti orðið mjög víðtæk fyrir samfélagið í heildi sinni og ábyrgð deiluaðila að ná sáttum áður en til verkfalls kemur sé því mikil. „Verkfall er neyðarvopn. Við megum því ekki gleyma nauðsyn þess að mál leysist þannig að sú óvissa sem nú ríkir skapist ekki reglulega í menntunarmálum barna. Hversu klisjukennd sem fólki kann að finnast umræða um börn sem ávexti framtíðar eða mannauð framtíðarsamfélags megum við ekki láta deilur fullorðinna einstaklinga skyggja á þarfir og umhverfi barnanna. Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um þarfir þeirra, vonir og drauma. Það er úr takti við nútímann að börn skuli þurfa að búa við óvissu eins og núna ríkir - það er of dýrt fyrir börnin, of dýrt fyrir samfélagið, of dýrt fyrir framtíðina,“ segir meðal annars í bréfinu.
Myndin: Frá skólastarfi í Njarðvíkurskóla. Úr myndasafni VF.is.