Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 29. september 2003 kl. 12:01

Verkefni fyrir bráðger börn

Reykjanesbæ hefur boðist að taka þátt í verkefninu „Bráðger börn - verkefni við hæfi“ sem Landssamtökin Heimili og skóli, Háskóli Íslands, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og nokkrar aðrar skóla- og fræðsluskrifstofur hafa samstarf um að því er fram kemur á vef Reykjanesbæjar. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem reynt er að búa bráðgerum börnum og unglingum sem ákjósanlegust viðfangsefni og aðstæður til náms í samstarfi við færustu sérfræðinga.
Börnum sem fædd eru á árunum 1989 til 1992, og þykja skara fram úr í námi, býðst þátttaka í verkefninu samkvæmt skilgreindum viðmiðum.

Gert ráð fyrir 9.000 kr. framlagi sveitarfélags með hverju barni sem greitt verður af fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Þátttökugjald frá heimilum er 12.000 kr. Forráðamenn sem telja sig ekki geta kostað börn sín af einhverjum ástæðum geta sótt um niðurfellingu gjalda til verkefnisstjórnar.

Boðið er upp á eina námskeiðslotu á haustönn og eina á vorönn. Börnin vinna undir beinni leiðsögn kennara utan hefðbundins skólatíma og taka þátt í lokahátíð við lok hverrar lotu. Verkefnisstjórn skipa þau Meyvant Þórólfsson verkefnisstjóri, Ingibjörg Ingadóttir frá skrifstofu Heimilis og skóla og Guðrún Bachman kynningarstjóri Háskóla Íslands

Kynningarfundur verður haldinn í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur 11. október frá kl. 10 - 14:00. Áður hafa börnin og forráðamenn kynnt sér verkefnin sem verða í boði á vef Heimilis og skóla. Þau fylla út eyðublað og velja sér verkefni bæði fyrir haustönn og vorönn. Fyrri námskeiðslota stendur frá 25. október til 29. nóvember. Seinni námskeiðslota stendur frá 14. febrúar til 31. mars.

Hvaða börn teljast bráðger? - Viðmið
Ekki er til einhlít skilgreining á hópi bráðgerðra nemenda, en hér eru nefnd nokkur helstu viðmið sem aðstandendur verkefnisins Bráðger börn - verkefni við hæfi hafa horft til.

- Háar einkunnir í samræmdum prófum, að meðaltali 95 stig eða hærra
- Greindarvísitala 125-135 eða hærri
- Innri áhugahvöt sterk og námsárangur því góður vegna eigin áhuga á efninu og skyldum viðfangsefnum.
- Heillast svo af ákveðnum sviðum náms eða námsgreinum að þau geta ekki stillt sig um að kafa dýpra
- Hugsa óhlutbundið og eiga auðvelt með að leysa framandi og óvænt verkefni
- Eru snögg og nákvæm í hugsun
- Eru rökföst og vinna skipulega og kerfisbundið
- Koma með skapandi lausnir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024