Verkalýðsfélög til fundar á Keflavíkurflugvelli
Forsvarsmenn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK) og Verslunarmannafélags Suðurnesja (VS) hafa verið boðaðir til fundar með flugþjónustufyrirtækinu Airport Associates fyrir hádegi.
Mikil óvissa er hjá starfsmönnum sem m.a. unnu við afgreiðslu flugvéla WOW air. Margt af því fólki er félagsmenn í VSFK og VS. Fólk er þegar farið að leita til sinna verkalýðsfélaga með fyrirspurnir um næstu skref.
Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir mikla óvissu í dag og erfitt að ráða í framtíðina. Hún ráðist m.a. að því hversu hratt önnur flugfélög bregðist við brotthvarfi WOW air af markaði. Ekki sé ljóst á þessari stundu hversu margir missi störf sín á Keflavíkurflugvelli við brotthvarf WOW air.