Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Verjast Ebólu í sérstökum hlífðarbúningum
    Sigurður Skarphéðinsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Verjast Ebólu í sérstökum hlífðarbúningum
Fimmtudagur 23. október 2014 kl. 16:06

Verjast Ebólu í sérstökum hlífðarbúningum

- búa sig undir komu fyrsta Ebólu-sjúklingsins til Keflavíkurflugvallar

Sjúkraflutningamenn hjá Brunavörnum Suðurnesja (BS) fá í þessari viku sérstaka búninga til að klæðast þegar takast þarf á við hugsanlega Ebólu-smitaða einstaklinga. Það er hlutverk sjúkraflutningamanna BS að flytja veika flugfarþega úr vélum sem lenda á Keflavíkurflugvelli á sjúkrahús. Beðið hefur verið eftir þessum búningum í nokkrar vikur en erfitt er að fá þá þar sem eftirspurn er mikil.

Ebóla hefur verið mikið í fréttum að undanförnu og fréttir berast af því að smitaðir séu í flugvélum vestur um haf. Á hverjum degi fer gríðarlegur fjöldi flugvéla um íslenska flugstjórnarsvæðið og á meðan Ebólu-smituðum fjölgar þá aukast möguleikar á að flugvél með sýktan og veikan farþega þurfi að lenda á Keflavíkurflugvelli. Líkurnar á því að komið verði með veikan farþega til Íslands eru hins vegar litlar en möguleikinn er fyrir hendi.

Taka með sér lækni frá HSS um borð

Fulltrúar frá Brunavörnum Suðurnesja hafa átt nokkra fundi undanfarið með viðbragðshópi vegna Ebólu. Þar hefur verið farið yfir verkferla. Samkvæmt því skipulagi sem liggur fyrir þá kemur það í hlut sjúkraflutningamanna frá Brunavörnum Suðurnesja að sækja sjúklinga um borð í flugvél og flytja þá á sjúkrahús. Samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi er gert ráð fyrir að upplýsingar berist frá áhöfn flugvélarinnar um ástand farþega. Sjúkraflutningamenn BS munu taka með sér lækni frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem mun greina sjúklinginn. Samkvæmt verkferlinu sem unnið verður eftir er gert ráð fyrir að flytja sjúkling beint á Landspítala en hafa ekki viðkomu á HSS, eins og gert er í dag þegar flugvélum er snúið til Keflavíkurflugvallar með veika farþega. Hingað til hefur það ekki verið venjan að læknar fari um borð í flugvélarnar en breyting verður á nú, þegar grunur um Ebólu-smit er til staðar.

Hafa viðkomustaði sem fæsta

Undanfarið hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar og velt upp viðbrögðum við þeim. Þannig er m.a. gert ráð fyrir því að farþegi sem verið hefur á áhættusvæði í Afríku gæti verið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og veikst þar. Markmið allra aðgerða er að hafa viðkomustaði sjúklings eins fáa og mögulegt er og að eins fáir og mögulegt er þurfi að komast í snertingu við hinn veika.

Að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar, varaslökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, verða sjúkraflutningamenn og læknir klæddir sérstökum hlífðarbúningum sem Landlæknisembættið er að leggja til í þessari viku. Um er að ræða lokaðan búning með andlitsmaska og hlífðargleraugum.

Í skipulaginu er gert ráð fyrir að flugvélar með sjúklinga sem eru veikir af Ebólu noti flugstæði á svokölluðu austursvæði Keflavíkurflugvallar. Þar verði hinn veiki fluttur um borð í sjúkrabíl en flugvélin taki svo eldsneyti og haldi ferðalagi sínu áfram og haldin verði skrá yfir farþega sem voru næst hinum veika eða komust í snertingu við hann.

- Hafa starfsmenn Brunavarna Suðurnesja rætt þetta? Hvernig líst ykkur á að takast á við svona verkefni?
„Við erum bundnir þeirri skyldu að sinna sjúklingum hvaðan sem þeir koma en að sjálfsögðu velta menn þessu fyrir sér og það var nú bara síðast í nýliðinni viku sem það lenti hér flugvél með farþega sem hafði blæðandi magasár og uppköst. Það fær mannskapinn til að hugsa um málið og fylgjast með þessu,“ segir Sigurður í samtali við Víkurfréttir.

Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024