Verður Félagsbíó bardagahús Reykjanesbæjar?
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar tekur í umsögn til bæjarráðs Reykjanesbæjar undir áhuga bardagaíþróttadeilda í Reykjanesbæ á að skoða til framtíðar húsnæðið að Túngötu 1 í Keflavík. Segir í umsögninni að staðsetning er góð, auk þess sem Hnefaleikafélag Reykjaness fengi varanlega aðstöðu en félagið hefur verið í gömlu Sundhöllinni.
Júdódeild UMFN og Taekwondeild Keflavíkur hafa verið með æfingaaðstöðu að Iðavöllum 12, sem Reykjanesbær leigir. Leigusamningur er til þriggja ára og gildir til 1. nóvember 2015. Engar viðræður um framlengingu samnings eru hafnar, en vitað er að áhugi er á því hjá leigusala, sem hefur einnig rætt um að hann hafi viðbótarhúsnæði upp á 400 fermetra sem hægt væri að útbúa fyrir deildirnar.
Íþrótta- og tómstundaráð segir að til að geta borið saman kostnað, annars vegar vegna Iðavalla 12 og hins vegar vegna Túngötu 1, þurfi að liggja fyrir nánari upplýsingar um leigukostnað. Einnig þurfi að liggja fyrir kostnaður vegna starfsmannahalds og hreingerninga á báðum stöðum. Ráðið leggur til að farið verði í nánari greiningu á kostnaði.