Verður Baldur KE settur á stall?
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur falið Árna Sigfússyni bæjarstjóra að útvega ástandsmat og kanna kostnað við varðveislu mb. Baldurs KE 97. Ólafur Björnsson, fyrrum útgerðarmaður Baldurs, hefur sent bæjaryfirvöldum erindi þess efnis að báturinn verði varðveittur, enda merkilegur fyrir marga hluti.Bæjarráð Reykjanesbæjar óskaði á dögunum umsagnar menningar- íþrótta og tómstundaráðs vegna hugmynda Ólafs um að varðveita mb. Baldur KE 97 og hvort að Reykjanesbær væri reiðubúið að taka við bátnum, að því gefnu að Ólafi takist að fá bátinn og koma honum á land. Reykjanesbær byggði síðan undirstöður undir bátinn, en Ólafur býðst til að þrífa hann og mála.
Menningar- íþrótta og tómstundaráð (MÍT) leitaði eftir áliti Sigrúnar Ástu Jónsdóttur, forstöðumanns Byggðasafns Reykjanesbæjar og mætti hún á fund MÍT undir þessum lið. Sigrún gerði ráðinu grein fyrir núverandi bátaeign Byggðasafnsins og drögum að söfnunarstefnu Reykjanesbæjar, sem MÍT þarf að yfirfara á næstu mánuðum. Sigrún lagði áherslu á að allir bátar í eigu safnsins þarfnast viðgerða og viðhalds og því þurfi að gera nákvæma áætlun um framkvæmd móttöku báts eins og Baldurs svo og forvörsluáætlun. Hún fagnar hins vegar frumkvæði Ólafs og vilja hans til að sinna bátnum ef og þegar hann er kominn á viðeigandi stað. Sigrún setti fram þá hugmynd að e.t.v. væri mögulegt að aðstoða við stofnun félags áhugafólks um björgun og viðgerðir á gömlum bátum; félag sem tæki gamla báta "í fóstur".
Menningar- íþrótta og tómstundaráð lagði til á fundi sínum að bæjarráð taki vel í erindi Ólafs, en að fram fari hlutlaust ástandsmat á mb. Baldri og að ítarleg kostnaðaráætlun verði gerð um væntanlega móttöku og varðveislu bátsins til framtíðar
Atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar fékk einnig erindið til umsagnar. Það er hlynnt framtaki Ólafs Björnssonar, en hvetur til að mörkuð verði framtíðarstefna í skipasafni Reykjanesbæjar.
Myndin: Baldur siglir út frá Keflavík seint á síðasta ári. VF-mynd: Hilmar Bragi
Menningar- íþrótta og tómstundaráð (MÍT) leitaði eftir áliti Sigrúnar Ástu Jónsdóttur, forstöðumanns Byggðasafns Reykjanesbæjar og mætti hún á fund MÍT undir þessum lið. Sigrún gerði ráðinu grein fyrir núverandi bátaeign Byggðasafnsins og drögum að söfnunarstefnu Reykjanesbæjar, sem MÍT þarf að yfirfara á næstu mánuðum. Sigrún lagði áherslu á að allir bátar í eigu safnsins þarfnast viðgerða og viðhalds og því þurfi að gera nákvæma áætlun um framkvæmd móttöku báts eins og Baldurs svo og forvörsluáætlun. Hún fagnar hins vegar frumkvæði Ólafs og vilja hans til að sinna bátnum ef og þegar hann er kominn á viðeigandi stað. Sigrún setti fram þá hugmynd að e.t.v. væri mögulegt að aðstoða við stofnun félags áhugafólks um björgun og viðgerðir á gömlum bátum; félag sem tæki gamla báta "í fóstur".
Menningar- íþrótta og tómstundaráð lagði til á fundi sínum að bæjarráð taki vel í erindi Ólafs, en að fram fari hlutlaust ástandsmat á mb. Baldri og að ítarleg kostnaðaráætlun verði gerð um væntanlega móttöku og varðveislu bátsins til framtíðar
Atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar fékk einnig erindið til umsagnar. Það er hlynnt framtaki Ólafs Björnssonar, en hvetur til að mörkuð verði framtíðarstefna í skipasafni Reykjanesbæjar.
Myndin: Baldur siglir út frá Keflavík seint á síðasta ári. VF-mynd: Hilmar Bragi