Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Verðum að halda í  vonina og bjartsýnina
Laugardagur 11. maí 2024 kl. 06:04

Verðum að halda í vonina og bjartsýnina

Frumvarp lagt fram um sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur. „Jákvætt fyrir Grindvíkinga,“ segir Ásrún Helga, forseti bæjarstjórnar.

Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku að leggja fram á Alþingi lagafrumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um að stofnuð verði sérstök framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa og áhrifa þeirra á byggð og samfélag. Í frumvarpinu sem var lagt fram í upphafi vikunnar er lagt til að nefndin fari með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggi skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hafi heildaryfirsýn yfir málefnum Grindavíkurbæjar.

Frumvarpið er unnið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík. Lagt er til að framkvæmdanefndin starfi tímabundið og að lögin falli úr gildi við næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2026.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Tilgangurinn með sérstakri framkvæmdanefnd er að skapa skýra umgjörð um verkefnin framundan og tryggja  úrlausn þeirra. Meginmarkmiðið er að samfélag Grindvíkinga geti dafnað og að hlúa að íbúum bæjarins til framtíðar,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur verði fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hafi með höndum fjölþætt verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Með því að setja sérstök lög um starf framkvæmdanefndarinnar er hlutverk og umboð nefndarinnar skýrt. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mun áfram fara með stjórn sveitarfélagsins, starfsmannahald og bera ábyrgð á og hafa fullt fjárstjórnunarvald yfir lögbundnum og ólögbundnum verkefnum, sem framkvæmdanefnd eru ekki falin sérstaklega.

Framkvæmdanefndin verður skipuð þremur einstaklingum og tekur til starfa við gildistöku laganna.  Innviðaráðherra skipar einn fulltrúa, sem jafnframt verður formaður, mennta- og barnamálaráðherra einn og dómsmálaráðherra einn.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar segir bæjarstjórnina í baráttuhug, halda verði í bjartsýnina og vonina. Grindavíkurbær geti ekki veitt sömu þjónustu og áður. Ekki verður skólahald á vegum Grindavíkurbæjar næsta vetur og margar byggingar bæjarins þarfnist viðgerðar.  Frumvarpið sé jákvætt fyrir Grindvíkinga. Hún segir frumvarp innviðaráðherra fela í sér mikilvæg markmið um að vinna að farsæld Grindvíkinga óháð búsetu þeirra. Skýr markmið, samhæfing og trygg fjármögnun séu lykilforsendur sem frumvarpið eigi að tryggja.