Verðmæti útflutnings frá Grindavík tæpur milljarður
Verðmæti útflutnings á síðasta fiskveiðiári frá Grindavík á óunnum afla nam tæpum milljarði samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Aukning magns og verðmætis á milli ára var töluverð og jókst aflaverðmætið um allt að því helming á milli ára. Alls var flutt út vel á fjórða þúsund tonn frá Grindavík. Mest var flutt út frá Vestmannaeyjum eða 5,7 milljarða en síðan komu Grundarfjörður og Grindavík.
Á síðasta fiskveiðiári (2008/2009) var fluttur út óunninn afli á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og gámum að verðmæti 17,8 milljarðar króna. Verðmæti útflutts óunnins afla jókst því um 45,5% á milli fiskveiðiára. Útflutt magn jókst úr 56.548 tonnum í 59.349 tonn eða 5%. Vert er að minnast á að sé litið til heildarverðmæta frá fiskveiðiárinu 2006/2007 2006/2007 þá hefur verðmæti óunnins útflutts afla aukist um 75% á meðan útflutt magn hefur aukist um tæp 19%. Ætla má að staða íslensku krónunnar hafi veruleg áhrif í þessum efnum.
Af einstökum tegundum er flutt mest út af óunninni ýsu eins og undanfarin fiskveiðiár. Útfluttur ýsuafli fiskveiðiárið 2007/08 var 23.755 tonn að verðmæti 4,7 milljarðar króna en 22.347 tonn fiskveiðiárið 2008/09 að verðmæti 6,4 milljarðar króna. Þrátt fyrir 5,9% samdrátt í útflutningi á ýsu jókst verðmæti um 37,8%.
Útflutningur á óunnum þorski jókst milli síðustu tveggja fiskveiðiára. Útfluttur þorskafli fiskveiðiárið 2007/08 var 5.843 tonn að verðmæti 1,96 milljarðar króna en 8.827 tonn fiskveiðiárið 2008/09 að verðmæti 3,3 milljarðar króna. Þetta er aukning um 51,1% í magni og 68,6% aukning í verðmæti. Af öðrum tegundum ber helst að nefna að útflutningur á óunnum karfa minnkar jafnt og þétt síðustu þrjú fiskveiðiár.
Frá þessu er greint á www.grindavik.is þaðan sem myndin er einnig fengin.