Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 29. apríl 2001 kl. 12:14

Verbúð gjöreyðilagðist í eldsvoða

Tveggja hæða íbúðarhús sem notað var sem verbúð á Reykjanesi gjöreyðilagðist í eldsvoða í kvöld. Íbúar voru í húsinu en þá sakaði ekki.Útkallið barst Brunavörnum Suðurnesja rétt fyrir hálf ellefu í kvöld og tók það fyrstu menn tuttugu mínútur að komast á vettvang. Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við fréttavef Víkurfrétta að strax hafi verið ljóst að ekki yrði við neitt ráðið.
„Þegar við komum á vettvang var ekki um neitt annað að ræða en að kanna nánasta umhverfi en fiskþurrkunarstöð er í næsta húsi“, sagði Sigmundur.
Ekki var talin hætta á að eldurinn bærist í þurrkunarstöðina. Slökkviliðið lenti fljótt í vandræðum með vatn á brunastað. Auk þess að vera með vatn á dælubíl var tankbíll sendur á staðinn frá Keflavík og annar frá Grindavík. Á brunastað varð að sækja vatn í tjörn við Saltverksmiðjuna.
Eldsupptök eru óljós en samkvæmt upplýsingum á vettvangi mun eldurinn hafa komið upp á 2. hæð hússins.
Íbúðarhúsið var byggt fyrir rúmum áratug og sagði Sigmundur að gerðar hafi verið athugasemdir við eldvarnir í húsinu.
Rannsóknarlögregla mun vinna sína vettvangsvinnu í birtingu en ljóst er að þar er erfitt verk fyrir höndum, enda stendur nær ekkert uppi af húsinu.

Myndir frá vettvangi brunans í kvöld.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson ©
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024