Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Velvilji á Suðurnesjum fyrir komu Landhelgisgæslunnar
Þriðjudagur 26. nóvember 2013 kl. 10:10

Velvilji á Suðurnesjum fyrir komu Landhelgisgæslunnar

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur nú til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, mælti fyrir málinu á Alþingi á dögunum en alls eru níu þingmenn flutningsmenn á málinu en auk Silju Daggar eru það Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Elsa Lára Arnardóttir.

Í þingsályktuninni seggir að Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

Í greinargerð með tillögunni segir að umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli hefur staðið um nokkurra missira skeið. Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja alla starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin, nánar tiltekið á öryggissvæðið á Ásbrú, en nú þegar er Landhelgisgæslan með umfangsmikla starfsemi á svæðinu og þúsundir fermetra af vannýttu húsnæði. Það fylgir því mikil hagræðing að hafa alla starfsemina á einum stað og þjónusta og öryggi munu einnig aukast þar sem viðbragðstími Landhelgisgæslunnar styttist með því að færa alla starfsemi hennar. Einnig mun flugfloti gæslunnar komast í gott framtíðarhúsnæði sem uppfyllir öryggisstaðla.
 

Viðbragðstími flugmanna styttist mikið með breyttu vaktafyrirkomulagi
Fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, fékk Deloitte til að gera hagkvæmnisathugun á að flytja Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Úttektin er dagsett 14. apríl 2011 og niðurstaða er að kostnaðarsamt sé að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar, m.a. vegna aukins flutningskostnaðar starfsmanna frá Reykjavík til Suðurnesja, en sá kostnaður er bundinn kjarasamningum. Einnig er nefndur verulegur kostnaður við að breyta bakvaktarfyrirkomulagi þyrlusveitar í viðverufyrirkomulag. Þá þyrfti að fjölga þyrluflugmönnum um 50% þannig að rekstrarkostnaður ykist verulega. Þess ber þó að geta að með breyttu vaktafyrirkomulagi styttist viðbragðstími flugmanna mikið. Niðurstaða úttektarinnar er umdeild, m.a. bent á að forsendur hennar fyrir auknum kostnaði séu ekki réttar enda segja skýrsluhöfundar að við útreikninga séu forsendur ýmissa þátta háðar óvissu. Þeir benda einnig á að úttektin horfi eingöngu til fjárhagslegra áhrifa en einnig þurfi að meta þætti er varða öryggismál þegar ákvörðun um mögulegan flutning verður tekin. Höfundarnir segja: „Aðstaðan í heild er því nógu góð til skemmri tíma en það þyrfti að bæta aðstöðuna til lengri tíma litið, sérstaklega ef áætlanir eru um eflingu starfseminnar.“ Í umræddri athugun kemur fram að um 40 manns starfi nú við loftvarnaeftirlit (IADS) en það er tengt öllum loftvarnaupplýsingakerfum NATO. Hins vegar er ekki nefnt í úttektinni að Landhelgisgæslan rekur nú þegar mörg mannvirki á öryggissvæðinu sem eru ekkert eða lítið nýtt.

Afar heppileg aðstaða fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar
Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er til staðar afar heppileg aðstaða fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar til framtíðar. Þar er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti.

Nú er Landhelgisgæslan með starfsemina dreifða í leiguhúsnæði á mörgum stöðum, þ.m.t. á öryggissvæðinu á Ásbrú. Stækkunarmöguleikar eru t.d. ekki á Reykjavíkurflugvelli þar sem þyrlusveitin er nú og húsnæðið mjög óhentugt í alla staði. Í byggingum á öryggissvæðinu er hins vegar aðstaða fyrir alla starfsemi gæslunnar. Þar er landsvæði sem hægt er að laga að þörfum stofnunarinnar og velvilji er hjá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.

Mannvirkin sem um ræðir á öryggissvæðinu eru nú þegar í rekstri Landhelgisgæslunnar og með því að nýta þau betur undir starfsemi gæslunnar næðist mikil fjárhagsleg hagræðing fyrir ríkið til lengri tíma. Hér má nefna stóra flugskýlið (12.200 m2) sem endurnýjað var árið 2000 og þjónustubyggingar sem má nýta fyrir flugvélar, þyrlur og viðhald. Óverulegar breytingar þarf að gera á þessum byggingum svo þær henti starfsemi gæslunnar og í þessu samhengi er rétt að benda á ábyrgð ríkisins gagnvart Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins varðandi viðhald og rekstur mannvirkjanna.

Með flutningi til Suðurnesja fengi Landhelgisgæslan gott framtíðarhúsnæði og stórbætta aðstöðu.

Góð hafnaraðstaða í Reykjanesbæ
Á svæðinu er einkar góð hafnaraðstaða: Njarðvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Helguvíkurhöfn. Nú þegar ber Landhelgisgæslan ábyrgð á rekstri hluta Helguvíkurhafnar, þ.e. þess hluta sem er á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Úttekt á nauðsynlegum breytingum á hafnaraðstöðu liggur fyrir (2009). Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar og Helguvíkurhöfn kemur einnig til greina. Staðsetning hafna út frá öryggissjónarmiðum mundi batna frá því sem nú er þar sem styttra yrði fyrir varðskipin að komast út á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, hafsvæðið í kringum Ísland.

Með samþættingu verkefna munu möguleikar Landhelgisgæslunnar til að sinna leit og björgun í samstarfi við nágrannaþjóðir margfaldast en Landhelgisgæslan nýtir nú þegar öryggissvæðið í þeim tilgangi. Það hefur háð Landhelgisgæslunni að hafa ekki verið með viðeigandi tengimöguleika sem eru til staðar suður frá á sviði leitar og björgunar, öryggis- og varnarmála og löggæslu og umhverfisverndar og auðlindagæslu við stofnanir nágrannaríkja sem flestar eru herir eða stofnanir á vegum varnarmálaráðuneyta samstarfsþjóðanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar með mikla starfsemi á Keflavíkurflugvelli
Landhelgisgæslan rekur nú þegar öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og fer með framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna, sbr. varnarmálalög, nr. 34/2008, auk þess sem sprengjueyðingarsveitin hefur aðstöðu á svæðinu. Þess má einnig geta að sérsveit ríkislögreglustjóra er með aðstöðu á öryggissvæðinu og hópar á vegum lögreglu og Lögregluskólans æfa þar.

Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla, aðstaðan fyrir starfsemina yrði mun betri og tryggð til framtíðar og síðast en ekki síst mundi flutningurinn styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllu.