Vélsmiðja Grindavíkur voru fyrstir til að opna í Grindavík
Vélsmiðja Grindavíkur (VG) var fyrsta fyrirtækið til að hefja starfsemi eftir fyrri rýminguna 10. nóvember. Þeir voru fljótir upp úr startblokkunum eftir að hleypt var aftur inn í bæinn 20. febrúar en VG hefur líka opnað útibú í Hafnarfirði. Ómar Ólafsson, einn eigenda Vélsmiðjunnar var staddur í Grindavík í gær, hann er bjartsýnn á framtíðina.
Ómar er venjulega í starfsstöð VG í Hafnarfirði en fyrirtækið náði að opna þar ekki löngu eftir hamfarnirnar 10. nóvember. „Ég er venjulega í Hafnarfirði en kem heim þegar þörf er á því. Við höfum verið að sinna skipunum í Hafnarfirði því þau hafa verið að landa þar. Við vorum fyrstir til að hefja starfsemi eftir fyrri rýminguna og það var kominn fínn gangur í það, vorum búnir að opna verslunina og bílaverkstæðið og viðskiptin jukust dag frá degi. Svo þurfti auðvitað að rýma við eldgosið 14. janúar og þá fórum við á byrjunarreit má segja en við opnuðum um leið og það var leyft 20. febrúar og það er ágætis reitingur, það er það mikið af verktökum að vinna í Grindavík svo við kvörtum ekki. Það eina sem vantar er að skipin fari að landa aftur í Grindavík, við þurfum að fara fá tekjur inn á höfnina okkar, maður fann það svo vel hvað allt lifnaði við þegar bátarnir og skipin fóru að landa hér eftir áramótin, þá færðist smá líf á hafnarsvæðið. Við þurfum að fá þetta í gang aftur.“
Skotheldar öryggisáætlanir
Ómar og fjölskylda hafa komið sér fyrir í Urriðaholti í Garðabæ en hugur hans stefnir heim til Grindavíkur. „Ef ég væri einsamall væri ég líklega fluttur í Bjarmalandið mitt austur í Þórkötlustaðahverfi, þ.e.a.s. ef vatn væri komið á húsin, en það hverfi er algjörlega óskemmt. Nú bíðum við bara eftir næsta atburði sem við vonum að verði á góðum stað fjarri byggð og innviðum. Hvað þetta ástand mun vara lengi veit auðvitað enginn en á meðan gýs fyrir utan bæinn og varnargarðarnir verja okkur, tel ég áhættuna vera ásættanlega og við ættum að geta snúið til baka einum til tveimur dögum eftir hvert eldgos. Vonandi munu sem flestir snúa til baka hægt og örugglega og sérstaklega atvinnulífið, það er nauðsynlegt fyrir bæinn að koma hjólum atvinnulífsins af stað og því fyrr sem það gerist, því betra. Ég treysti fyrirtækjunum til að hafa sín öryggismál á hreinu, þau eru flest með öryggisstjóra og hann mun sjá til þess að allir séu farnir úr húsi út í bíl, þetta á ekki að þurfa taka margar mínútur. Við erum með þrjár leiðir færar út úr bænum, við eigum því alveg að geta verið örugg. Ég held að Almannavarnir og við öll höfum lært mikið af þessu til þessa, nú horfum við bara fram á veginn og verðum að aðlaga okkur að þessum breytta veruleika með jákvæðni og bjartsýni að vopni,“ sagði Ómar að lokum.