Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Velferðarráðuneyti hafnaði beiðni um undanþágu
Reykjanesbær vill vera leiðandi sveitarfélag en hin fjögur vilja starfa saman í byggðasamlagi
Föstudagur 20. nóvember 2015 kl. 15:30

Velferðarráðuneyti hafnaði beiðni um undanþágu

- Íbúar á þjónustusvæði vegna samninga um málefni fólks með fötlun skulu að lágmarki vera 8.000.

Velferðarráðuneyti hefur hafnað beiðni bæjaryfirvalda í Garði, Vogum, Grindavík og Sandgerði um undanþágu frá ákvæði í lögum um að 8.000 íbúar að lágmarki skuli vera á þjónustusvæði vegna þjónustusamninga um málefni fólks með fötlun. Þau málefni fluttust frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 og voru þá sett lög þess efnis að það skyldu að lágmarki vera 8.000 íbúar á hverju þjónustusvæði. 

Félagsþjónusturnar þrjár á Suðurnesjum, Í Reykjanesbæ, Grindavík og sameiginleg félagsþjónusta Sandgerðis, Garðs og Voga mynda nú eitt þjónustusvæði en því verður að breyta vegna nýrra ákvæða í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi um síðustu áramót. Nýju ákvæðin eru þess efnis að samstarf sveitarfélaga skuli annað hvort vera í byggðasamlagi eða þar sem eitt sveitarfélagið er svokallað leiðandi sveitarfélag. Bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar eru mótfallin því að starfsemin verði í byggðasamlagi en eru reiðubúin til að vera leiðandi sveitarfélag. Hin sveitarfélögin vilja hins vegar stofna byggðasamlag. Þegar þetta lá fyrir var ákveðið að bæjaryfirvöld allra sveitarfélaga á Suðurnesjum, utan Reykjanesbæjar, myndu sækja um undanþágu frá 8.000 íbúa markinu en samanlagður íbúafjöldi þeirra er um 7.000. 

Samkvæmt úrskurði Velferðarráðuneytis var ekki fallist á undanþáguna. Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum, er sveitarfélögunum á Suðurnesjunum gert að finna lausn á samstarfinu. „Það er annað hvort byggðasamleg eða samstarf undir forystu leiðandi sveitarfélags. Málið er því komið í hring,“ segir hann.
 
Í fundargerð bæjarráðs Voga frá 21. október síðastliðnum kemur fram að ljóst sé að sveitarfélögin á Suðurnesjum þurfi að finna sameiginlega lausn málsins. Ráðið leggur til að það verði tekið upp á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum með það að markmiði að finna ásættanlega niðurstöðu þess.
 
Í skriflegu svari við fyrirspurn Víkurfrétta um afstöðu Reykjanesbæjar, frá Heru Ósk Einarsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, segir að Reykjanesbær fái 350 milljónir frá ríkinu í ár vegna þjónustu við fatlað fólk en að kostnaður bæjarins verði hátt í 500 milljónir. „Hér er um að ræða þjónustu sem var á höndum ríkisins fram til ársins 2011 þegar málaflokkurinn var færður til sveitarfélaga. Ríkið hefur ekki mætt breyttum þjónustuþörfum og nýjum áherslum í málaflokknum sem kallar á aukið fjármagn til hans og því hefur vaxandi kostnaður vegna þessa verkefnis fallið á sveitarfélagið.“ Sama staða sé uppi í mörgum öðrum sveitarfélögum og ljóst að ekki sé hægt að halda áfram á þeirri braut. „Í fyrstu drögum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016 var áætluð fjárþörf til málaflokksins metin um 700 milljónir, það er tvöfalt meiri en áætlað framlag ríkisins til hans og því ljóst að ekki verður hægt að mæta öllum óskum um þjónustu og nýbreytni í þjónustu við fatlað fólk og hætt við að aukin bið verði eftir ákveðinni þjónustu,“ segir í svari Heru Óskar, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjanesbæjar.
 
Málið var á dagskrá fundar stjórnar SSS nýlega þar sem bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga var lögð fram. Fulltrúar sveitarfélaganna munu halda áfram að ræða málin og er óformlegur viðræðufundur á dagskrá í næstu viku.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024