Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel mætt til að vernda Hljómahöllina
Fundurinn var vel sóttur. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 10:17

Vel mætt til að vernda Hljómahöllina

Vel var mætt á samstöðufundinn Verndum Hljómahöllina sem fór fram í Hljómahöll í gærkvöldi. Á fundinum var verið að mótmæla ákvörðun bæjaryfirvalda að færa Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll og þar með skerða starfsemi Rokksafns Íslands og tónlistarskólans. Í kringum 300 manns mættu og var fundurinn hinn líflegasti.
Magnabandið spilaði hressilegt rokk.

Hljómsveit Magnabandið, sem er skipuð nemendum úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, opnaði viðburðinn með hressilegu rokki og að því loknu bauð Baldur Þórir Guðmundsson, einn skipuleggjenda, viðstadda velkomna og fór í stuttu máli yfir mikilvægi safnsins fyrir sjálfsmynd Reykjanesbæjar. Elíza Newman stýrði svo fundinum og á mælendaskrá voru þeir Jakob Frímann Magnússon, Páll Óskar Hjálmtýsson, Bragi Valdimar Skúlason og Ásgeir Elvar Garðarsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jakob Frímann rifjaði upp aðdragandann að stofnun safnsins og sagði frá þeirri undirbúningsvinnu sem hann og Rúnar Júlíusson lögðu í verkefnið á sínum tíma. Jakob hvatti til að ákvörðunin um að loka safninu yrði endurskoðuð og varpaði fram þeirri hugmynd að gera samninga við rútufyrirtækin sem ferja erlenda ferðamenn til og frá flugvellinum um að stoppa við í Rokksafninu. Það myndi skila aukinni aðsókn og aðgangseyri. Jakob benti á að þetta væri alþekkt hjá söfnum um víða veröld og nefndi sem dæmi ABBA-safnið í Stokkhólmi og Rockheim í Osló.

Næstur á svið var Páll Óskar en hann rifjaði upp þegar Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, kom að máli við hann og falaðist eftir munum frá Páli til að hafa í safninu. Páll Óskar sagðist þurfa að koma út úr skápnum og viðurkenna að hann væri haldinn söfnunaráráttu, hann hafði nefnilega geymt alla búninga sína sem hann færði safninu að gjöf. „Ég treysti því að búningasafnið mitt yrði varðveitt og geymt í safninu en ekki að það myndi enda í einhverri geymslu,“ sagði Páll Óskar. Hann stakk einnig upp á því að byggja húsnæði undir bókasafn á lóðinni við Hljómahöll frekar en að reyna að troða því inn í húsnæði Hljómahallar og þar með skerða þá menningarstarfsemi sem þar væri til staðar. Páll Óskar tók undir hugmynd Jakobs þess efnis að „díla við rútur“ eins og hann orðaði það.

Þegar Páll Óskar hafði lokið máli sínu tók Ásgeir Elvar Garðarsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, til máls. Ásgeir ræddi málin út frá sjónarmiði þeirra sem starfa í ferðamannabransanum og það aðdráttarafl sem söfn á borð við Rokksafnið hefðu á ferðamenn. Hann sagði jafnframt að bæjaryfirvöld væru stefnulaus og aðgerðarlaus í málefnum á borð við skólamál og íþróttastarf og nú væri vegið að menningarstarfi í Reykjanesbæ. Ásgeir lagði mikla áherslu á að Reykjanesbær yrði að halda sínum sérkennum og þar gegndi Rokksafnið lykilhlutverki. „Þetta lítur út eins og uppgjöf og með sama áframhaldi mun Reykjanesbær tapa sínum sérkennum og breytast í ódýrt úthverfi,“ sagði Ásgeir Elvar.

Að lokum tók Bragi Valdimar Skúlason til máls en hann er m.a. meðlimur Baggalúts og formaður Félags tónskálda og textahöfunda (FTT). Bragi sagðist vera reiður og leiður fyrir hönd tónlistarmanna og tónlistarsögunnar og sér finnist vera vegið að vöggu rokksins með hugmyndum bæjaryfirvalda.

Hljómsveitin Nostalgía lokaði svo dagskrá þessa líflega fundar með góðu rokki.
Barnabarn og nafni Rúnars Júlíussonar er trommuleikari Nostalgíu.

Fyrstu íbúamótmælin í þrjátíu ára sögu Reykjanesbæjar

Eftir fundinn þakkaði Baldur Þ. Guðmundsson fundargestum fyrir komuna og hvatt fólk til að skrifa undir áskorun þess efnis að bæjarstjórn falli frá þessari ákvörðun sinni. Víkurfréttir ræddu við Baldur eftir viðburðinn.

„Þetta var mjög vel heppnaður mótmælafundur sem var haldinn hér í Rokksafninu í kvöld þar sem tæplega 300 manns mættu og skoruðu á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að að falla frá ákvörðun sinni um að flytja Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll og þrengja þannig að starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Rokksafni Íslands og Hljómahallar,“ sagði Baldur.

„Ég var sérstaklega ánægður með fundinn og þann anda sem á honum ríkti. Það eru margir bæjarbúar óhressir með þessar hugmyndir og vilja að bókasafnið uppfylli sýna framtíðarsýn í öðru húsnæði og blásið verði í glæður Rokksafnsins frekar en að slökkva í þeim.

Allir sem til máls tóku sáu endalaus tækifæri í að byggja upp Rokksafnið á þeim grunni sem myndaður hefur verið og sækja fram eins og íslenskt tónlistarfólk hefur gert í gegnum tíðina. Ég lagði fram undirskriftarlista á Island.is undir heitinu Verndum Hljómahöll,“ sagði Baldur og bætti við í lokin: „Ég man ekki eftir samskonar mótmælafundi íbúa í Reykjanesbæ í þrjátíu ára sögu sveitarfélagsins.“


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á fundinum og tók ljósmyndir sem má sjá í meðfylgjandi myndasafni neðst á síðunni.

Verndum Hljómahöllina | 18. apríl 2024