Vel launuð hátæknistörf hjá Algalíf á Ásbrú - VIDEO
Fjárfestingasamningur undirritaður og uppbygging örþörungaverksmiðju heldur áfram.
„Þetta eru hátæknistörf í nýjum og spennandi geira sem getur þróast út í stærra og meira ef allt gengur vel,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í viðtali við Víkurfréttir eftir að hafa undirritað fjárfestingarsamning milli ráðuneytisins og Algalífs í dag. Ásamt Ragnheiði Elínu undirrituðu samninginn Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, og Skarphéðinn Orri Björnsson, framkvæmdastjóri Algalífs.
Líftæknifyrirtækið Algalíf byggir 7500 fermetra örþörungaverksmiðju á Ásbrú og verður hún fullkláruð um mitt næsta ár. Úr örþörungunum er unnið sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur, auk þess að vera neytt í hylkjaformi. Framleiðslan hefst strax í ár en fullum afköstum verður náð árið 2016.
Sterkur kjarni og góð laun
Árni Sigfússon segir að á Ásbrú sé að myndast mjög sterkur kjarni starfsemi eins og þarna fer fram og að kosturinn við hana væri að um væri að ræða störf sem kalli á vísindamenn og séu vel launuð. Átta manns starfa hjá fyrirtækinu en þeim verður fjölgað í febrúar og verða um 30 þegar verksmiðjan verður komin í fullan gang. Hún verður sú fullkomnasta sinnar gerðar í heiminum.
Geta selt allt sem þeir framleiða
Mikill og vaxandi markaður er fyrir andoxunarefnið sem framleitt verður í verksmiðjunni því heimsframleiðsla núna annar hvergi nærri eftirspurn. Að sögn Skarphéðins er það óvenjulega góð staða: „Það er beinlínis skortur á vörunni og erfitt að framleiða hana. Það er því mjög þægileg staða að geta selt allt sem þú framleiðir og meira til.“
Viðtöl við Ragnheiði Elínu, Árna og Skarphéðin Orra eru hér fyrir neðan. Meðfylgjandi myndir voru einnig teknar við undirritum samningsins og þegar Skarphéðinn sýndi gestum aðstöðuna og fræddi þá um hana og viðkvæmt framleiðsluferli sem á sér stað í örþörungaverksmiðju.
VF-myndir og viðtöl/Olga Björt og Davíð Örn.