Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 29. nóvember 2000 kl. 10:51

Vel heppnaðar æfingar

Brunavarnir Suðurnesja hafa haft í nógu að snúast þessa dagana. Forvarnastarf hefur verið öflugt og má í því samhengi helst nefna hertar rýmingaræfingar á leikskólum svæðisins, þar sem brunaæfing með reyk og tilheyrandi hefur verið æfð, ásamt tímamælingum í rýmingunni og útkallstíma slökkviliðsins. Viðbrögð og þátttaka hefur verið með eindæmum góð og vill Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri B.S. koma á framfæri sérstöku þakklæti til þeirra sem að málinu komu.

Brunavarnaátak
Framkvæmd brunavarnaátaks á svæði Brunavarna Suðurnesja hefur verið í höndum eldvarnaeftirlits B.S. en þá er farið með samræmt fræðsluefni í alla 3. bekki grunnskólana þar sem farið er yfir forvarnir gegn brunum og brunaslysum, sem eru alltof tíð um jól og áramót.
„Brunavarnir Suðurnesja gefa börnunum rafhlöður í reykskynjara, en um þær þarf að skipta einu sinni á ári og eru jólin góður tími til þess jafnframt og það er brýnt fyrir þeim hvað reykskynjarar eru nauðsynlegir á hverju heimili. Börnin fá verkefni til að fara með heim, bæklinga og límmiða með neyðarnúmerinu 112. Þá eru þeim afhentar litabækur með verkefnum um brunavarnir en þær gefa Lionnessur í Keflavík. Að endingu er þeim sýnt myndband um þær hættur sem eru því samfara að skjóta upp og meðhöndla flugelda þar sem sérstök áhersla er lögð á öryggisþáttinn s.s. notkun öryggisgleraugna“, segir Sigmundur til útskýringar.

Eldur í þvottavél
Tuttugu og sjö sjúkraflutningar og sex brunaútköll voru hjá Brunavörnum Suðurnesja í vikunni. Þar af voru fjórir staðfestir eldar en allir minniháttar. Eldur kom upp í þvottavél í íbúðarhúsi Vogum. Þegar slökkviliðið kom á staðinn hafði húsráðandi brugðist hárrétt við með því að aftengja þvottavélina og loka hurðum til að hindra útbreyðslu reyks og sóts. Slökkviliðið fjarlægði þvottavélina úr húsinu og reykræsti. Þá var kveikt í vörubílsflaki í heiðinni fyrir ofan Garðinn. Töluverður eldur og reykur var þegar slökkviliðið kom á vettvang og varð að nota léttvatn til að ráða niðurlögum eldsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024