Fréttir

Vel heppnað skólaþing í Heiðarskóla
Illugi Gunnarssson menntamálaráðherra og Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis með kennurunum sem unnu kennsluefnið í stærðfræði á vendikennsla.is. VF-myndir/Páll Orri.
Þriðjudagur 18. nóvember 2014 kl. 11:17

Vel heppnað skólaþing í Heiðarskóla

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra opnaði formlega vefsíðu á skólaþingi Heiðarskóla í Reykjanesbæ sl. laugardag. Þar er tekið saman allt kennsluefni í stærðfræði á unglingastigi og sett fram með speglaðri kennslu. Kennsluefnið var unnið af stærfræðikennurum í Heiðarskóla og er seinasta viðbótin við samantekt stafrænna verkfæra sem tekin eru saman á vef Námsgagnastofnunar vendikennsla.is. Áður hafði verið unnið sambærilegt námsefni fyrir náttúrufræðigreinar og íslensku. Margir foreldrar  og kennarar sóttu þingið og tók þátt í umræðum í málstofum að því loknu.

„Mjög örar framfarir eru í tækni og hvernig menn afla sér þekkingar. Það er mjög mikilvægt að við nýtum tækifærið til að efla áhuga nemenda á námi með notkun á þeim tækjabúnaði sem nemendur þekkja svo vel og  eru að nota dags daglega. Við þurfum að nýta okkur tæknina til að efla einstaklingana sem námsmenn. Bæði hvað varðar upplýsingaöflun og vinnu við upplýsingar og einnig hvernig nemendur geta komið þekkingu sinni frá sér.  
Hlutverk okkar sem hér störfum er ekki bara fólgið í því að fræða nemendur heldur efla þá, hjálpa þeim að að þroska vitsmuni sína og félagslega færni. Þeir þurfa að þroskast á náminu, þeir þurfa að eflast sem manneskjur. Nú er ekki lengur spurt    hvað veistu – heldur hvað getur þú gert við þekkingu þína, hver er færni þín?,“ sagði Sóley Halla Þórhallsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla við upphaf skólaþingsins.

Metnaður
Menntamálaráðherra sagði að tekið væri eftir því hversu mikill metnaður væri í Reykjanesbæ hjá forystufólki í menntamálum sem og hjá sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum. „Það er vakning í umhverfinu, foreldrum og bæjarbúum, sem telja það mjög mikilvægt að skólstarfið sé öflugt. Það hefur áhrif á hvar fólk vill búa. Fólk með börn á grunnskólaaldri horfir til þess hvort það sé góður skóli á staðnum og vill tryggja að þau geti gengið að góðum menntastofnunum. Það ræður svo miklu um framtíð barnanna. Þetta eru því allt miklir hagsmunir fyrir bæjarfélagið að vel sé staðið að þessu málum,“ sagði Illugi meðal annars í ræðu sinni og hrósaði Heiðarskóla fyrir frábært forystustarf, m.a. í Ipad kennslu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skemmtilegt samstarf
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar sagði við VF að samstarf háskólans Keilis á Ásbrú og Heiðarskóla í þessu verkefni væri mjög jákvætt. „Þetta er mjög skemmtilegt samstarf og ekki algengt að þessi tvö skólastig vinni saman. Ipadvæðingin byrjaði í Heiðarskóla og við erum að fylgja henni eftir. Það hefur tekist í þessum mikla uppgangi í skólamálum hérna að fá foreldrana með og allir unnið saman að því markmiði að efla skólastarfið. Það hefur tekist mjög vel og sést vel á miklu betri námsárangri.“

Einstakt
Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis sagði vefinn (vendikennsla.is) stórmerkilegan á heimsvísu. Hvergi annars staðar í heiminum væri þetta efni til á einum stað á veraldarvefnum, öll innlögn í stærðfræði fyrir 8.-10. bekk, sem allir hafa aðgang að. Nú væri hægt að skipuleggja námið þannig að krakkarnir geta skoðað kynninguna heima á vefnum og vinna svo verkefni út frá því í skólanum. „Hér er verið að virkja nemandann og einnig væri verið að jafna tækifæri fólks til náms. Það hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu á Suðurnesjum, menntabylting, með framsæknum kennurum og áhugasömum foreldrum. Þeir sem mennta sig ekki verða bara eftir á,“ sagði Hjálmar.

Skólastarf á fleygiferð
„Skólakerfið okkar er á fleygiferð. Þetta kraftmikla, vel menntaða, unga fólk sem þar starfar er að gera frábæra hluti. Nýjar kenningar og aðferðir í samskiptum, ný tækni, nýir kennsluhættir o.s.frv. er að umbylta því sem ég myndi kalla hefðbundið skólastarf. Vel upplýstir foreldrar halda okkur líka vel við efnið. Þeir gera kröfur um að nemendur fái bestu mögulegu kennslu við bestu mögulegu aðstæður. Nemendurnir sjálfir líka,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar eftir þingið á fésbókarsíðu sinni.

Meira verður fjallað um skólaþingið í sjónvarpsþætti Víkurfrétta á fimmtudag og í blaðinu.

Fjöldi fólks sótti skólaþingið í Heiðarskóla.

F.v. Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri, Haraldur Einarsson, aðstoðarskólastjóri, Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og Sóley Halla Þórhallsdóttir skólastjóri Heiðarskóla.

Fjórir nemendur úr 10. bekk héldu saman erindi um hvað Heiðarskóli þyrfti að gera til að geta orðið þessi frábæri skóli? F.v. Páll Orri Pálsson, Árni Geir Árnason, Snædís Glóð Vikarsdóttir og Stella Björk Einarsdóttir.

Hin ýmsu málefni skólastarfsins voru rædd í málstofum eftir erindin.