Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Veitukerfi í Grindavík mikið löskuð
Ljósmynd: Golli
Föstudagur 2. febrúar 2024 kl. 19:16

Veitukerfi í Grindavík mikið löskuð

Almannavarnir hafa á síðustu vikum unnið að því að meta stöðuna í Grindavík. Um er ræða eitt umfangsmesta verkefni vegna náttúruhamfara sem almannavarnakerfið og stjórnvöld hafa tekist á við. Almannavarnir hafa birt yfirgripsmikla samantekt á ástandinu í bænum.

Grindavík er án kalds neysluvatns, þar sem stofnlögn er ónýt og tengibrunnur skemmdur eftir hraunrennsli. Talið er að dreifikerfið sé laskað, en ekki er hægt að kanna það fyrr en þrýstingur er kominn á kerfið. Vegna þessa er t.d. ekkert slökkvivatn er á brunahönum Grindavíkur. Viðgerðir verða umfangsmiklar og tímafrekar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stofnlögn heitavatnsins frá Svartsengi er ónýt og því er nú notast við lögn sem liggur undir hrauni. Sú lögn er með skemmda einangrun og óvíst hve lengi hún mun duga og hversu mikinn þrýsting hún þolir. Þrátt fyrir að náðst hafi að að halda lágmarkshita í byggðinni getur það breyst hratt við minnstu breytingu og því var biðlað til íbúa að hækka ekki hita eða nota heitt vatn, þegar farið var heim. Rúmlega 200 hús eru án hitaveitu en flest þá hituð með rafmagni.

Fráveitukerfið í Grindavík var myndað eftir jarðskjálftana 10. nóvember og búið var að gera á því bráðabirgðaviðgerðir, án þess að þrýstingsprófa. Þrátt fyrir að fráveitukerfið hafi ekki verið skoðað frá síðasta eldgosi þá er kerfið talið illa farið vegna aflögunar jarðvegs. Bæði hafa hreyfingar verið miklar og fleiri svæði í bænum sigið. Það getur valdið vandræðum síðar og jafnvel víðar í bænum. Óvissa ríkir því um umfang og tímaramma viðgerða.

Stofnstrengur rafmagns frá Svartsengi skemmdist í hraunrennslinu og var því bráðabirgðastrengur hengdur yfir hraunið. Á meðan var Grindavík keyrð á færanlegum varaaflsvélum í eigu Landsnets til að halda rafmagni á byggðinni. Dreifikerfið er því laskað en með mikilli aðstoð ýmissa aðila hefur tekist að fæða nær öll hús með rafmagni. Dreifikerfið er viðkvæmt gagnvart jarðhræringum, álagi og veðri. Viðgerðir verða umfangsmiklar og tímafrekar.