Veitingamenn á Suðurnesjum fá það óþvegið
Veitingamenn á Suðurnesjum eru afar óhressir með stóryrtar yfirlýsingar Níelsar S. Olgeirssonar, formanns Matís, Matvæla og veitingafélags Íslands.
Níels skrifaði í blað félagsins að svo virtist sem það væri regla á Reykjanesi að menn færu ekki eftir lögum við rekstur veitingahúsa.
Fréttablaðið greindi frá þessu í gær. Í greininni skýtur Níels föstum skotum að veitingamönnum á Suðurnesjum og reyndar lögregluna á svæðinu líka. Greinir hann frá ónafngreindum veitingamanni sem erfitt hafi reynst að koma í dómssal, þrátt fyrir að lögreglan matist hjá honum daglega.
„Það tók held ég eitt og hálft ár að koma honum í réttarsalinn. Samt var sýslumaðurinn þarna að borða hjá honum. Reykjanesið er svolítið sérstakt því það virðist vera eins og það sé regla hjá þeim að vera með mikið af svartri starfsemi í veitingabransanum," er haft eftir Níelsi.
Fréttablaðið talaði við nokkra veitingamenn á Suðurnesjum sem eru afar óhressir með yfirlýsingar formanns Matvís. Steinþór Jónsson á Hótel Keflavík segir formanninn eiga að biðjast afsökunar.
„Okkur finnst ósmekklegt af forsvarsmanni Matvís að þjófkenna heila stétt af fólki sem er að berjast við erfiðar aðstæður," er haft eftir Einari Bárðarsyni, sem rekur Officeraklúbbinn.
„Það þarf að komast á hreint hver þetta er því það er ekki gott að vera bendlaður við þetta," segir Örn Garðarson sem rekur Soho.
Níels kveðst standa við fyrri yfirlýsingar og ætlar ekki að biðjast afsökunar. „ En ef veitingamenn vilja skal ég gera tilraun til þess í næsta Matvísblaði að hvítþvo þá sem eru hreinir – ef þeir finnast," er haft eftir Níelsi.
VF er kunnugt um að veitingamenn á svæðinu hafi sett sig í samband við lögfræðinga vegna málsins.
Sjá fréttir Fréttablaðsins og visi.is hér og hér