Veist að björgunarsveitarmanni við störf á Reykjanesbraut í morgun

Veist var að björgunarsveitamanni sem var við störf. Mannaði hann, að beiðni lögreglu, lokunarpóst við Fitjar en eins og kunnugt er var Reykjanesbrautin meira og minna lokuð í nótt og í morgun.

Tildrög málsins eru þau að snjóplógur var að leggja í Reykjanesbrautina og fengu flugrútan og fleiri aðilar, sem lögregla mat að þyrftu að komast til höfuðborgarinnar, að aka brautina í kjölfar hans. Öðrum var gert að bíða. Einn ökumaður sætti sig ekki við þetta fyrirkomulag og ógnaði björgunarsveitamanninum þannig að hann sá þann einn kost að flýja inn í björgunarsveitabílinn og læsa að sér. Þá var barið í rúðu bílsins og var lögregla kölluð á staðinn til að skakka leikinn.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma þeim tilmælum á framfæri að fólk sýni skilning á störfum björgunarsveitafólks sem er að aðstoða samborgara sína í erfiðum aðstæðum, endurgjaldslaust og ógni ekki öryggi þess á meðan það reynir að tryggja öryggi annarra.

Mynd úr safni