Veiða Stóra-Brama út af Reykjanesi
Sjómenn á Suðurnesjabátum hafa undanfarið orðið varir við svokallaðan Stóra-Brama á miðunum undan Reykjanesi. Hefur hann verið að slæðast með öðrum fiski á línunni. Að sögn sjómanns sem lét VF í té meðfylgjandi ljósmyndir, þykir mönnum nokkur fengur í Stóra-Brama enda sannkallaður herramannsmatur á ferð. Þykir hann einna helst minna á túnfisk.
Þessi fisktegund hefur öðru hvoru veiðst við Íslandsstrendur en svo virðist sem menn verði meira varir við hann núna. Hvort það tengist hlýnun sjávar eða öðrum breytingum á náttúrunni er ekki hægt að fjölyrða um.
Heimkynni Brama-fisks er í Norðursjónum og í hlýrri hlutum Atlantshafsins. Hann er silfurlitaður og svartur, ekki ósvipað og síld, og getur orðið um einn metri að lengd. Algengast er að hann sé á bilinu 40 – 60 sentimetrar.