Veggjakrotarar valda tjóni við leikskóla
Veggjakrotarar urðu valdir að tjóni við leikskólann Garðasel í Keflavík á fimmtudagskvöld eða aðfaranótt föstudags. Þegar starfsfólk leikskólans mætti til starfa á föstudagsmorgun var búið að úða ljótar myndir á veggi og einnig skrifa nokkur orð í risastórum stöfum.
Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar voru kallaðir til og þrifu þeir í burtu veggjakrotið. Byrjað var á að fjarlægja myndir af risastórum kynfærum og síðan fékk annað krot að fjúka.
Þeir sem kannast við handbragðið á veggjakrotinu eru hvattir til að segja til skemmdarvarganna.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi.