Vegagerðin á vaktinni vegna eldgoss
Allar leiðir til Grindavíkur lokaðar
Vegagerðin fylgist grannt með eldgosinu milli Sýlingarfells og Hagafells norður af Grindavík. Grindavíkurvegur, Suðurstrandavegur vestan Krýsuvíkurvegar og Nesvegur við Brimketil eru lokaðir vegna neyðarstigs Almannavarna og verða áfram þar til annað verður ákveðið. Reykjanesbrautin var lokuð um tíma í gærkvöldi og fram á nótt en er nú opin. Vel er fylgst með hraunstraumi til vesturs sem gæti hugsanlega náð að Grindavíkurvegi þótt ekki sé hætta á því eins og sakir standa. Frá þessu er greint á vef Vegagerðarinnar.
Vaktstöð Vegagerðarinnar miðlar jafnóðum öllum upplýsingum um lokanir og opnanir á þessum vegum á umferdin.is en um leið og gosið hófst í gærkvöldi sást það á vefmyndavélum Vegagerðarinnar. Fulltrúi frá Vegagerðinni situr í samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíðinni og hefur verið á vaktinni frá því að gos hófst í gærkvöldi.
Í gær var starfsfólk frá Vegagerðinni á ferð um Grindavík til að skoða skemmdir á vegum og götum í og við bæinn. Viðgerðir hafa staðið yfir í samstarfi Vegagerðarinnar, verktaka á svæðinu og Grindavíkurbæjar. Sú vinna hefur verið unnin í takti við það stig sem er í gildi hverju sinni, sem er ýmist óvissu-, hættu eða neyðarstig.
Mikil áhersla hefur verið lögð á að halda öllum helstu leiðum í og við bæinn færum. Búið er að lagfæra og malbika verstu kaflana á Grindavíkurvegi en miklar sprungur höfðu mynduðust í veginum og vegaxlir víða skemmst í kjölfar jarðskjálftanna í nóvember. Umræddir vegkaflar eru innan varnagarðanna sem reistir hafa verið og vonast er til að ekki verði frekari skemmdir á þeim.
Að sögn Valgarðs Guðmundssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni, var ákveðið að gera við Grindavíkurveg til bráðabirgða svo hægt væri að halda honum opnum í vetur en líklega þarf að ráðast í frekari lagfæringar í vor. „Einnig er búið að gera við Nesveg til bráðabirgða en vakta þarf svæðið, sem er nokkuð óstöðugt. Í kjölfar skjálftanna 10. nóvember sl. bað Grindavíkurbær Vegagerðina um aðstoð við að gera við götur í eigum bæjarins svo þær væru færar fyrir umferð og það var okkur ljúft og skylt að verða við því, í samstarfi við okkar verktaka,“ segir Valgarður.
Flestar viðgerðir eru til bráðabirgða því sums staðar er ekki hægt að ráðast í varanlegar viðgerðir fyrr en hættuástandi hefur verið aflýst og í sumum tilfellum ekki fyrr en næsta vor. Nú þegar byrjað er að gjósa er beðið með frekari viðgerðir og fylgst með þróun mála.
Ljósmyndir: Vegagerðin