Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

VefTV: Ungmennaráð vill betri strætó og lægri æfingagjöld
Fimmtudagur 8. nóvember 2012 kl. 20:00

VefTV: Ungmennaráð vill betri strætó og lægri æfingagjöld

Strætisvagnaferðir, æfingagjöld, forvarnir vegna vímuefna og lagfæring göngustíga voru helstu atriðin sem nýtt Ungmennaráð Reykjanesbæjar vill að bæjarstjórn taki til skoðunar en það var skipað í lok síðasta árs. Því er ætlað að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í bæjarfélaginu. Í ráðinu eru 13 fulltrúar á aldrinum 13 til 18 ára og jafnmargir til vara og hefur starfað síðan í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ungmennaráð mætti í fyrsta sinn til fundar hjá bæjarstjórn sl. þriðjudag. Þrír fulltrúar fluttu tölu og ræddu helstu mál sem brenna á ungmennum í bæjarfélaginu. Sóley Þrastardóttir, formaður ráðsins sagði að ráðið hafi tekið til starfa í júní sl. og helstu málin sem það hafi tekið fyrir væru íþróttir, forvarnir og skólamatur en stærsta málið væru strætóferðir. Azra Crnac, fulltrúi Fjörheima í ungmennaráði sagði mikilvægt að skoða betur æfingagjöld í íþróttum. Það væri t.d. bagalegt að hafa ekki systkinaafslátt og eins af hverju hvatagreiðslur hefðu verið teknar af. Eins þyrfti að gera félagsmiðstöðina Fjörheima heimilislegri. Ragnheiður Alma, fulltrúi björgunarsveitarinnar í ungmennaráði benti á forvarnir í sinni ræðu og að í rannsókn meðal 8.-10. bekkja grunnskóla hafi komið fram að hlutfallslega fleiri krakkar í Reykjanesbæ héldu að maríúana væri skaðlaust.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði eftir ræður krakkanna að ábendingar þeirra væru mikilvægar og góðar. Hann fór yfir helstu málin sem þau bentu á og sagði að til stæði að breyta strætóferðum um næstu áramót. Kristinn Jakobsson, Framsóknarflokki, sagði að með þessum fundi með ungmennaráði væri draumur að rætast en hann lagði fram tillögu um skipan þess í lok síðasta árs. Fleiri bæjarfulltrúar hrósuðu krökkunum fyrir þeirra hugmyndir.

Fulltrúar ungmennaráðs og bæjarstjórnar ræddu síðan málin í góðu tómi á fundinum þar sem fleiri hugmyndir komu fram. Ein var sú að vera með sérstakan íþrótta- og tómstundadag, til dæmis í Reykjaneshöllinni og eins að hafa skoðanakönnun meðal ungmenna.

Hér að neðan eru ræður sem fluttar voru á fundi ungmennaráðsins.

Fundarstjóri. Góðir gestir.

Ég heiti Sóley Þrastardóttir og er formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
Ungmennaráð hefur tekið nokkur mál til umfjöllunar síðan það tók til starfa í júní ; meðal annars-íþróttir,forvarnir og skólamat.
En stærsta málið okkar hefur verið strætókerfið í bæjarfélaginu.


Við búum í víðfeðmu bæjarfélagi. Það tekur allt að 15 mínútur að keyra endanna á milli. Stór hluti tómstunda  sem í boði er fyrir börn og unglinga er staðsett í  og í nágrenni við Reykjaneshöllina. Þessar vegalengdir gera það að verkum að það er nauðsynlegt  að taka strætó til að komast á áfangastað, sérstaklega í skammdeginu þegar færðin versnar og erfiðara að komast um á reiðhjóli.

Almenningssamgöngur hafa ekki vaxið í takt við vöxt bæjarfélagsins. Þær hafa eiginlega gleymst, sem er alveg ótrúlegt miðað við hvað þær eru mikilvægar.Góðar samgöngur hljóta að vera ein af grunnforsendum fyrir líflegu tómstundastarfi og styðja þar við fjölskyldustefnu bæjarins. En sú hefur því miður ekki verið raunin síðustu misseri.

Þetta þarf að bæta. Við þurfum að komast á æfingar hvort sem þær eru seinnipartinn, á kvöldin eða um helgar. Það er ekki boðlegt að ætlast til þess að það taki okkur krakkana rúmlega klukkustund að komast á milli staða. Eða láta foreldrana skutla og sækja endalaust. Það gengur einfaldlega ekki. Okkar tími er líka verðmætur!
Hér er ég með nokkrar tillögur af því hvernig hægt er að bæta strætó-kerfið.
    1.    Strætó gangi á klukkutíma fresti eftir klukkan 18:30 og hann gangi til klukkan 22:00
    1.    Borga t.d. 100 krónur fyrir ferðina eftir klukkan 18:30.
    1.    Lífæðarstrætó (hraðleið)
    1.    Fleiri auglýsingar á strætóa
    1.    Bæta við fleiri stætóskýlum.


Niðurstaða nýrrar skýrslu sýnir fram á að iðkun íþrótta og tómstundastarfs hefur dregist saman í Reykjanesbæ á undanförnum árum. Og er nú komin niður fyrir landsmeðaltal. Við teljum að lélegar samgöngur séu ein af meginorsökum þess.
Við sem hér erum viljum leggja okkar af mörkum til að gera gott samfélag betra. Við fögnum því að verið sé að vinna að bættum samöngum og vonum að nýtt leiðarkerfi líti dagsins ljós sem fyrst.

Ég þakka gott hljóð.



Góðan daginn kæra bæjarstjórn, ungmennaráð og aðrir gestir.

Ég heiti Ragnheiður Alma og er fulltrúi björgunarsveitarinnar í ungmennaráði Reykjanesbæjar.

Eitt af áhersluatriðum okkar í ungmennaráðinu eru forvarnarmál. Fram kom í rannsókn sem gerð var á nemendum í 8. – 10. bekk grunskóla yfir allt landið að það eru hlutfallslega fleiri krakkar í Reykjanesbæ sem halda að mariuana sé skaðlaust. Það er auðvitað kolrangt og unglingaráðið telur að þessar niðurstöður komi til vegna minnkandi forvarnarfræðslu í bæjarfélaginu.  Þegar ég var á unglingastigi í grunnskóla, fyrir nokkrum árum,  komu reglulega óvirkir fíklar í skólann og sögðu nemendunum sína sögu. Þetta var í samstarfi við forvarnarstarf Lundar. Mér fannst það á nemendum að þeim hafi fundist gott  að fá þessa fyrirlestra og fá þau til að hugsa um þessi mál þar sem þau eru ekki ofarlega í huga unglinga dags daglega. Þessi fræðsla hefur minnkað eftir hrun og í sumum skólum bæjarfélagsins hefur þessi fræðsla minnkað töluvert. Í könnun sem gerð var af Rannsókn og greiningu á drykkju og neyslu vímuefna nemenda í Fjölbrautarskóla Suðurnesja kom fram að um 20 % stúlkna undir 18 ára hafa reykt mariuana og 40 % drengja, þetta eru sláandi tölur.  Ef við gerum ráð fyrir að um helmingur nemenda sé 18 ára og yngri eru það um 550 nemendur. Það gefur að um 55 stúlkur og 110 drengir hafi reykt vímuefnið mariuana einu sinni eða oftar.  Það segir okkur að einnig er mikil þörf á mikilli fræðslu á hættum þessara vímurefna í FS. Það skipti ekki öllu máli hver er með fræðsluna bara að aðilinn sem er með fræðsluna viti hvað hann er að tala um. Okkur finnst tilvalið að nýta Lund sem er í bæjarfélaginu en einnig er góð fræðslan hjá Marita. Ég veit að það er í Njarðvíkurskóla foreldrafræðsla þannig að foreldrar læri að þekkja einkenni neyslu og það er í samræmi við Krissa löggu. Það er mjög mikilvægt því að auðveldara er að stöðva fikt en neyslu. Þetta er vandamál núna en það þarf ekki að vera vandamál áfram, stöðvum þetta áður en þetta verður verra. Hafið það í huga að okkar kynslóð er sú kynslóð sem tekur við af ykkur. Má nefna að ég hef haft samband við Ella í Lundi og hann er meira en til í samstarf.

Annað málefni sem liggur okkur á hjarta er lýsing á göngusígum í bæjarfélaginu. Það eru nokkrir staðir þar sem viðkomandi sér ekki neitt þegar hann er að ganga á malbikuðum göngusígum og er þar mikil slysahætta þar sem það geta verið steina og holur í jarðvegi í kringum sítginn. Dæmi um þessa staði er milli Melavegs og Móavegs, göngusígurinn milli Grænáss og Bónus, á bak við Keflavík ,þ.e. milli Reykjaneshallar og Iðuvalla. Það er vonlaus að labba heim að kvöldi til og þú sérð ekki hvar þú stígur niður fætinum. Okkur finnst vanta smá lýsingu, t.d. eins og á gönguleiðinni meðfram sjónum.
Takk fyrir.



Sæl veriði, ég heiti Azra Crnac og er fulltrúi Fjörheima í Ungmennaráði Reykjanesbæjar. Ég stunda íþróttir og ég elska hreyfingu. Ég æfi fótbolta með Keflavík 3x í viku og á systkini sem stunda líka íþróttir.

Það sem við, meðlimir Ungmennaráðsins erum ekki sátt við eru æfingagjöldin. Af hverju er ekki systkina-afsláttur á milli greina? Til dæmis á milli sundeildarinnar og fótboltans? Það myndi spara foreldrum okkar mikla fjármuni ef slíkt væri í boði. Við spurðum bæjaryfirvöld  af hverju það væri ekki hægt að hafa eins kerfi og í Grindavík þar sem greiddar eru 20 þúsund krónur fyrir eitt ár og barnið má æfa eins margar íþróttir og það vill. Við fengum það svar að það yrði svo mikill kostnaður fyrir bæinn. Það er á vissu leyti skiljanlegt, en er ekki betra að fleiri krakkar stundi íþróttir heldur en færri? Ég bara spyr.        

Það sem við sættum okkur ekki við er að hvata greiðslunar voru teknar í burtu. Hvað varð um þær? Það er ekki nóg að segja að fólk hafi ekki nýtt sér greiðslurnar og að það sé ástæðan fyrir því að þær voru teknar út. Mín skoðun er að ástæðan fyrir því að fólk hafi ekki nýtt sér þessar hvata greiðslur hafi verið vegna þess að það hreinlega vissi ekki hvað það var. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólkið viti bara að það á rétt á slíkum greiðslum. Það þarf að segja frá og auglýsa. Í nýlegum rannsóknum kom fram að brottfall úr íþróttum er mikið í Reykjanesbæ. Af hverju skyldi það vera? Það er atvinnuleysi í bænum, foreldar vilja leyfa börnunum sínum að stunda íþróttir en það er ekki hægt ef það eru himinhá æfingagjöld. Hvað getum við gert til þess að laga þetta? Jú, það er hægt að vera með „afslætti“ sem foreldar geta nýtt sér og mögulega koma fleiri iðkendur. Ég er líka á því að strætó-kerfið hefur eitthvað með þetta að gera, það að krakkar komist ekki á æfingar á réttum tíma og geta þá bara einfaldlega ekki stundað íþróttina. Við erum búin að fá ábendingar um það að íþróttagreinarnar séu ekki nógu mikið auglýstar, þ.e.a.s krakkarnir vita ekki hvað er í boði. Við komum með þá hugmynd að halda íþróttadag, þá eru greinarnar kynntar og krakkarnir geta skoðað sig um og ákveðið hvað þau vilja iðka. Íþróttaiðkun er alltaf besta forvarnarstarfið og bærinn á að taka tillit til þess.
          

Ég sjálf er rosalega mikið í félags- og tómstundarstarfinu hérna í bænum, ég er í nemendaráði Heiðarskóla, unglingaráði Fjörheima- eins og ég gaf til kynna áðan og svo er ég hér, í ungmennaráðinu. Ég er á öðru ári mínu í unglingaráðinu og hef sjálf verið vitni að því að það sé frekar léleg aðsókn í félagsmiðstöðina. Ástæðan fyrir því er að hún virðist ekki vera nógu hlýleg. Þannig að við höfum ákveðið að taka Fjörheima í gegn, mála og endurnýja. Við vonumst til þess að aðsóknin muni aukast. Við sjáum til þess að það sé alltaf eitthvað spennandi að gerast í Fjörheimum eins og böll, bingó og skemmtilegar keppnir. Við reynum að fá nokkra fyrirlestra yfir árið til þess að fræða ungmennið hérna í bænum. Í seinustu viku fengum við Siggu Dögg kynfræðing í heimsókn og virtist hún hafa jákvæð áhrif á stelpuhópinn. Á skólaárinu ætlum við m.a. líka að bjóða uppá marítafræðslu og forvarnarfræðslu. Slík fræðsluerindi víkka sjóndeildarhring okkar og sýna okkur ýmist góðar eða slæmar hliðar á málefninu sem skiptir okkur máli. Þær gætu komið í veg fyrir því að einhver byrji að reykja eða að einhver ákveði að byrja að hreyfa sig meira og borða hollara því það er gott fyrir mann.  Félags- og tómstundarstörf skipta gríðalega miklu máli fyrir mig .

Ég vona að athugasemdirnar okkar, meðlimi ungmennaráðsins verði teknar til íhugunar og verði framkvæmdar.