Vefsjónvarp: Sérvirk prótein ræktuð í byggi í Grindavík
ORF Líftækni vígði formlega í gær hátæknigróðurhúsið Grænu smiðjuna sem liggur rétt utan við Grindavíkurbæ. Fyrsta uppskeran af erfðabreyttu byggi ORF var jafnframt tekin í gær og var það Össur Skraphéðinsson, iðnaðarráðherra sem fékk heiðurinn af því að klippa fyrstu öxin af uppskerunni. Vefsjónvarp Víkurfrétta fylgdist með og er komið innslag úr Grænu smiðjunni í VEFTV hér á vf.is.
Þar sem framleiðslan sem fer fram í Grænu Smiðjunni er afar flókin og vísindaleg fylgir hér á eftir lýsing úr tilkynningu frá ORF Líftækni:
Græna smiðjan er einstök á heimsvísu og framleiðslan í henni er að mestu leyti sjálfvirk. Byggplönturnar eru ræktaðar í næringarlausn á sérhönnuðu færibandi. Hitastigi, birtu, og rakastigi er stjórnað nákvæmlega til að aðstæður fyrir ræktunina séu sem bestar. Mikla orku þarf til ræktunar byggs í gróðurhúsi og smiðjan notar rafmagn og heitt vatn frá orkuveri Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi.
ORF Líftækni hefur undanfarin ár unnið að þróun á eigin kerfi þar sem bygg er notað til að framleiða sérvirk prótein eins og finnast í mannslíkamanum. Þar á meðal eru svokallaðir vaxtarþættir sem eru mikið notaðir við margvíslegar læknisfræðilegar rannsóknir. Fyrirtækið setti fyrstu vörur sínar á markað í janúar síðastliðnum undir heitinu ISOkineTM. Þar með varð ORF fyrsta fyrirtækið í heiminum til að hefja sölu á slíkum próteinum sem framleidd eru með sameindaræktun í plöntum. Framleiðslan er mun hagkvæmari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum eða spendýrafrumum og mikið öryggi felst í að framleiða slík prótein í plöntum sem ekki geta borið sýkingar í menn.
ORF Líftækni er þegar orðið stærsta fyrirtækið á sínu sviði í Evrópu. Mikil áhersla er nú lögð á markaðs- og sölumál og ORF hyggur á frekari landvinninga fyrir framleiðsluvörur sínar á næstunni, bæði fyrir læknisrannsóknir og lyfjaþróun og eins fyrir snyrtivöruiðnaðinn. Fyrirtækið kynnti vörur sínar nýlega á stórri sýningu snyrtivöruiðnaðarins í Evrópu og vöktu þær mikla athygli og áhuga. Einnig er nú unnið að því að fá vottun frá Evrópska lyfjaeftirlitinu til framleiðslu hráefna í lyfjagerð í Grænu smiðjunni.