Veður hamlar björgunarstarfi í Helguvík

Öflugar dælur komu með flugi til Keflavíkurflugvallar í nótt en þær á að nota til að dæla sjó úr sementsflutningaskipinu Fjordvik, sem situr strandað í Helguvík. Veður hamlar því að hægt sé að koma dælunum um borð í skipið.
 
Verkáætlun gerir ráð fyrir því að prófað verði aðdæla sjó úr skipinu til að átta sig á umfangi skemmda á skrokk og sjá hversu hratt sjór rennur aftur inn í skipið.
 
Vegna veðurs hafa landfestar verið settar úr skipinu og í land. Það ætti því ekki að færast úr stað þó vindar blási.
 
Skipið verður ekki fjarlægt af strandstaðnum við Helguvík nema menn séu fullvissir um að það fljóti. Það liggur einnig fyrir að skipið verður ekki dregið inn í höfnina í Helguvík. Líklegasti áfangastaður skipsins, eftir að það verður dregið á flot, er höfnin í Keflavík.