Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Vatnsverndarsvæði í hættu
Fimmtudagur 23. nóvember 2017 kl. 07:00

Vatnsverndarsvæði í hættu

- Umhverfis- og ferðamálanefnd Grindavíkur hefur farið fram á að slökkvilið sé ávallt kallað út

Slökkvilið Grindavíkur hefur ekki heimild til að fara á slysavettvang á Grindavíkurvegi nema nauðsynlegt sé að klippa einstakling eða einstaklinga úr bílum eftir slys samkvæmt áreiðanlegum heimildum Víkurfrétta.
Grindavíkurvegur er á vatnsverndarsvæði og er svæðið því í hættu þegar slys verða og olía lekur úr bílum. Hlutverk slökkviliðsins er meðal annars það að hreinsa upp eftir slys, til dæmis olíu og brak. Ef jeppi fer út af veginum og úr honum leka hundrað lítrar af olíu þá eru líkur á því að olían geti eyðilagt drykkjarvatn hér á Suðurnesjum sem getur orðið til þess að matvælavinnsla leggist af á svæðinu. Drykkjarvatn verður því ónýtt í um hundrað ár og ekki mögulegt að bjóða upp á drykkjarvatn úr krönum á flugstöðinni svo dæmi sé tekið.

Þrjár bílveltur hafa orðið á Grindavíkurvegi undanfarin misseri og var slökkviliðið kallað út í einni þeirra þar sem beita þurfti klippum til þess að ná farþegum úr bílnum. Slökkviliðið var ekki kallað út við hin tvö slysin sem voru á vatnsverndarsvæðinu en neyðarlínan kallar ekki slökkviliðið út eftir slys á veginum nema beita þurfi klippum eins og áður hefur komið fram. Umhverfis- og ferðamálanefnd hefur lagt fram tvær bókanir á þessu ári og eru þær frá mars og júní:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

22. mars.
4. 1703058 - Grindavíkurvegur: vatnsvernd/öryggismál
Sviðsstjóra falið að beina þeim tilmælum til slökkviliðsstjóra að tækjabíll slökkviliðs verði ávallt kallaður út þegar óhöpp verða innan vatnsverndarsvæðis í lögsögu bæjarins, þá sérstaklega á Grindavíkurvegi.

21. júní.
2. 1703058 - Grindavíkurvegur: vatnsvernd/öryggismál
Umhverfis- og ferðamálanefnd leggur til við almannavarnarnefnd að tækjabíll slökkviliðs verði ávallt kallaður út þegar umferðaróhöpp verða innan vatnsverndarsvæðis í lögsögu bæjarins, þá sérstaklega á Grindavíkurvegi. Málinu var vísað til almannavarnarnefndar.

Almannavarnarnefnd hefur ekki tekið málið fyrir á fundi þrátt fyrir að umhverfis- og ferðamálanefnd telji það brýnt að slökkvilið sé ávallt kallað út en engar fundargerðir eru til frá árinu 2017 inn á grindavik.is frá almannavarnarnefnd. Lokaákvörðunin stendur hins vegar á bæjarfulltrúum Grindavíkurbæjar og enn hefur ekki verið heimilað að slökkvilið mæti á svæðið til þess að hreinsa upp eftir slys þrátt fyrir bókanir umhverfis- og ferðamálanefndar. Slökkvilið Grindavíkur er stærsta björgunareiningin sem kölluð er út þegar slys verða á Grindavíkurvegi og er hún einnig fjölmennust, þrátt fyrir það er ekki gefið leyfi á það að slökkviliðið sinni sínu starfi þegar slys verða á veginum nema að beita þurfi tækjum frá slökkviliðinu til að koma fólki úr bílum.