Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vatnsnes auglýst til langtímaleigu
Vatnsnes, að Vatnsnesvegi 8 í Keflavík. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 4. ágúst 2020 kl. 10:29

Vatnsnes auglýst til langtímaleigu

Reykjanesbær hefur auglýst húsið Vatnsnes við Vatnsnesveg 8 í Keflavík til langtímaleigu. Um er að ræða staðsteypt hús byggt árið 1934, einangrað að innan og pússað að utan. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er húsið skráð 268,5 fermetrar.

Bjarnfríður Sigurðardóttir, ekkja Jóhanns Guðnasonar, gaf Keflavíkurbæ húsið árið 1969 með sérstöku gjafabréfi með þeirri kvöð að húsið yrði nýtt fyrir minjasafn Keflavíkur og til varðveislu gamalla minja. Bjarnfríður lést árið 1974 og tók Keflavíkurbær þá við húsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áform eru uppi um endurskoðun skipulags á Vatnsnesi en þó þannig að þetta hús standi og lóðin verði óbreytt. Húsið þarfnast verulegra og kostnaðarsamra endurbóta, bæði að utan og innan. Gert er ráð fyrir að leigutaki, í samráði við Reykjanesbæ, sjái um að framkvæma endurbætur á húsinu sem uppfylla ströngustu kröfur og greiði þannig leiguna, að hluta eða öllu leyti, segir á vef Reykjanesbæjar.

Húsið er leigt með þeirri kvöð að umráðaaðili tryggi varðveislu gamalla minja í húsinu, svo sem húsbúnaðar og mynda og ábyrgist að sett verði upp upplýsingaskilti þar sem fjallað er um sögu hússins og umhverfisins. Þá skal nafnið Vatnsnes tengt þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu. Loks skal umráðaaðili tryggja að húsið verði opið almenningi ef þess er óskað t.d. í tengslum við safnadaga, menningarhátíðir og þess háttar.

Tillögur að nýtingu hússins skulu sendar bæjarstjóra Reykjanesbæjar með rafrænum hætti á [email protected] eigi síðar en 1. september 2020. Áskilinn er réttur til að hefja viðræður við einn eða fleiri aðila eða hafna öllum tillögum.