„Varúð - banaslys hafa orðið á næstu fjórum kílómetrum“
Stopp-hópurinn með áhrifamikil skilaboð - vinstri beygja bönnuð við Hafnarveg
Félagar í samfélagshóp sem hefur það að markmiði að þrýsta á stjórnvöld um að tvöfalda Reykjanesbrautina frá Keflavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar, létu til sín taka á táknrænan hátt með því að setja upp skilti á tveimur stöðum við Reykjanesbrautina í dag.
Á skiltinu eru stutt en skýr skilaboð: „Varúð - banaslys hafa orðið á næstu fjórum kílómetrum - akið varlega!“ Textinn er einnig á ensku enda eru fjölmargir erlendir ferðamenn í umferðinnni árið um kring.
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar átti fund með Vegagerðinni í dag en þar kom fram að lokað yrði fyrir vinstri beygju frá Hafnarvegi inn á Reykjanesbraut. „Ákveðið var að bíða ekki frekar með að loka fyrir vinstri beygju af Hafnarvegi með lausum köntum og skilti. Eins og margoft hefur komið fram munu þessi gatnamót breytast þegar farið verður í framkvæmdir við undirgöngin eftir vonandi ca. mánuð,“ segir Guðlaugur í færslu eftir fundinn.
Hópurinn var stofnaður á Facebook til þess að þrýsta á stjórnvöld um að tvöfalda Reykjanesbraut frá Keflavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar. Á stuttum tíma hafa hátt á 17 þúsund meðlimir gengið til liðs við hópinn. Forsvarsmenn hópsins eiga fund með innanríkisráðherra í fyrramálið, þar sem rætt verður um kröfu hópsins um að tvöföldun Reykjanesbrautar verði komið á samgönguáætlun.