Fréttir

Varpa hlutkesti vegna lóða í Reykjanesbæ
Nýbygging í smíðum í Dalshverfi í Innri Njarðvík. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 11:57

Varpa hlutkesti vegna lóða í Reykjanesbæ

— Gríðarlegur vöxtur í fasteignaviðskiptum. Tími til kominn að byggja

Gríðarlegur uppgangur hefur verið í fasteignaviðskiptum á Suðurnesjum undanfarin þrjá ár. Nú virðist sem allt sé að seljast og tími til kominn að byggja upp. Slegist er um lausar lóðir og verktakar virðast ætla að byggja upp reiti sem hafa verið auðir árum saman. Talsvert er um það að fólk af höfuðborgarsvæðinu leiti á svæðinu eftir húsnæði.

Fasteignasalar telja að hátindi í íbúðaverði verði fljótlega náð en markaðurinn er stöðugur á meðan byggingaframkvæmdir eru ekki komnar á fullt. Lántökur vegna húsnæðislána hafa aukist gríðarlega undanfarin þrjú ár en nú er að hægjast þar á. „Suðurnes eru mesti vaxtarsproti Íslands um þessar mundir og fólk mun flykkjast hingað frá höfuðborginni,“ segir Páll Þorbjörnsson, eigandi Allt fasteigna.

Ungt fólk er í miklum mæli að kaupa sér fasteignir en það stígur varlega til jarðar við að velja sér réttu lánin. „Frá 2014-15 hefur verið mikil aukning í því að fólk er að sækjast eftir húsnæðislánum. Við finnum mikið fyrir því að fólk á aldrinum 25 til 40 ára er að kaupa sér eignir og þá oft sína fyrstu eign,“ segir Sighvatur Ingi Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ.

Í Víkurfréttum í dag má sjá veglega umfjöllun um fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum sem er að taka verulegan vaxtakipp. Suðurnesjamagasín Víkurfrétta verður einnig með ítarlega umfjöllun um málefnið í þætti vikunnar á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024