Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarmálastofnun verði formlega lögð niður 1. janúar 2011
Þriðjudagur 30. mars 2010 kl. 18:12

Varnarmálastofnun verði formlega lögð niður 1. janúar 2011

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshóps fimm ráðuneyta, sem skipaður var í desember að tillögu utanríkisráðherra. Starfshópurinn var settur á laggirnar til að gera tillögur um hvernig mætti framfylgja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun á þessu ári og samþætta verkefni hennar hlutverki annarra opinberra stofnana. Skýrt var tekið fram að Ísland stæði áfram við allar varnar- og öryggistengdar skuldbindingar sínar og að forræði á utanríkispólitískum þáttum yrði áfram hjá utanríkisráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í skýrslunni er bent á leiðir til að núverandi starfsþættir Varnarmálastofnunar verði hluti af nýrri borgaralegri stofnun, sem sæi um öryggis- og varnarmál á grundvelli borgaralegra gilda innan áformaðs innanríkisráðuneytis, en auk þess gerðar tillögur um hvernig þeir rúmast innan skyldra stofnana uns nýtt ráðuneyti kemst á fót. Í skýrslunni er lagt til, að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp að breytingum á varnarmálalögum þar sem Varnarmálastofnun verði formlega lögð niður 1. janúar 2011.


Í frumvarpi utanríkisráðherra er gert ráð fyrir að við lögfestingu taki til starfa sérstök breytingastjórn, skipuð fulltrúum ráðuneytanna fimm, sem stýri ráðstöfun einstakra verkefna til þeirra stofnana sem næst þeim standa. Starfshópurinn gerir ítarlega grein fyrir því í skýrslunni hvernig finna má þeim stað hjá Landhelgisgæslunni, Ríkislögreglustjóra, Fasteignum ríkissjóðs og utanríkisráðuneytinu auk þess sem bent er á mikilvægar leiðir til að útvista með þjónustusamningum tilteknum verkefnum.


Í frumvarpinu er meðal annars mælt fyrir um nýtt ákvæði um verksamninga, sem byggt er á fyrirmynd fjárreiðulaganna. Samkvæmt því yrði utanríkisráðherra veitt heimild til að gera við aðrar ríkisstofnanir verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir lögin falla. Með ákvæðinu er gert kleift að flytja einstök verkefni Varnarmálastofnunar til undirstofnana þeirra ráðuneyta sem síðar munu mynda nýtt innanríkisráðuneyti.


Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði sem tryggir að starfsfólki stofnunarinnar verði boðið starf hjá þeim ríkisstofnunum sem taka við verkefnum Varnarmálastofnunar, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.