Varnarmálastofnun sýnir aðhald í rekstri
Varnarmálastofnun áætlar að skila um 120 milljón krónum í rekstrarafgang af fjárheimildum ársins 2009, en sú niðurstaða hefur fengist með verulegu aðhaldi í rekstri stofnunarinnar. Fjárheimild ársins 2009 hljóðaði upphaflega upp á 1.227 milljón krónur, en hún var skert um 50 milljónir á árinu, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar vegna aðhaldsaðgerða. Rekstur ársins 2009 var því um 170 milljón krónum undir upphaflegum fjárheimildum.
Varnarmálastofnun hefur tekist að hagræða með því að draga verulega saman í rekstri og með því að fresta áætluðum viðhaldsverkefnum og kaupum á tækjum. Þjónustusamningum við verktaka hefur verið sagt upp og þeim verkefnum sinnt með því að nýta betur starfsmenn stofnunarinnar. Þá hefur ferðakostnaður hér heima og erlendis verið takmarkaður eins og kostur er.
Á árinu 2008 var Varnarmálastofnun rekin með 313 milljón krónur í rekstrarafgang. Er því uppsafnaður afgangur á fyrstu 18 mánuðum stofnunarinnar áætlaður um 430 milljón krónur. Endanlegar fjárheimildir fyrir árið 2008 lágu ekki fyrir fyrr en með fjáraukalögum 2008. Í ljósi efnahagsástandsins, kröfu um hagræðingu og aðhald í ríkisrekstri sem og stöðu íslensku krónunnar hefur einungis nauðsynlegustu verkefnum á sviði viðhalds mannvirkja og kerfa verið sinnt frá stofnun Varnarmálastofnunar. Frá upphafi hefur stofnunin í hvívetna sýnt ábyrgð í meðferð fjármuna.
Að störfum er nefnd fimm ráðuneyta sem mun í lok febrúar leggja fram tillögur um framtíð Varnarmálastofnunar. Á meðan annað hefur ekki verið ákveðið sinnir Varnarmálastofnun þeim verkefnum sem henni hafa verið falin með varnarmálalögum og ákvörðun utanríkisráðuneytis.