Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Laugardagur 12. júlí 2003 kl. 12:32

Varnarliðsmaðurinn fluttur á Varnarsvæðið

Bandaríski hermaðurinn sem sakaður er um hrottalega líkamsárás í Hafnarstræti í vor var fluttur til Keflavíkurflugvallar í gærkvöld. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tók á móti manninum ásamt herlögreglunni en hann er vistaður í fangageymslum hersins. Ríkissaksóknari féllst á að verða við þeirri kröfu Bandaríkjahers að hann annaðist gæslu mannsins meðan á rannsókn málsins stæði. Þetta er gert að tillögu utanríkisráðuneytisins en ríkissaksóknari setti þó það skilyrði að yfirmenn herliðsins samþykktu með formlegri yfirlýsingu að gæsluvarðhaldið yfir sakborningnum yrði í samræmi við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Yfirlýsingin átti að liggja fyrir við hlið varnarsvæðisins en ef hún fengist ekki átti að flytja manninn aftur í varðhald á Litla Hrauni, segir á vef ruv.is.Jóhann R. Benediktsson sýslumaður á Keflavíkurflugvelli segir að yfirlýsingin liggi fyrir. Samkvæmt heimildum fréttastofu Útvarps er vonast til að þetta liðki fyrir rannsókn málsins en lögreglan hefur óskað eftir því að yfirheyra fjóra varnarliðsmenn vegna málsins en þeirri ósk hefur verið látið ósvarað í viku af yfirmönnum varnarliðsins.

Kolbrún Sævarsdóttir hjá ríkissaksóknara segir að einungis sé um að ræða tilraun til að koma til móts við kröfur Bandaríkjamanna en ríkissaksóknari ætli ekki að fallast á að réttað verði yfir manninum fyrir herrétti.

Deilt hefur verið um forræði málsins en bent hefur verið á að reglan sé sú að utanríkisráðuneytið ákveði hvort framselja skuli lögsögu samkvæmt varnarsamningnum. Árni Páll Árnason lögfræðingur segir í grein í Morgunblaðinu í dag að utanríkisráðuneytið hafi látið bandaríska herinn fá lögsögu í um 40 tilvikum þar af fimm á undanförnum 12 árum. Það sýni að forræði slíkra mála hafi alltaf verið í höndum utanríkisráðuneytisins.

En herinn hefur ekki alltaf fengið lögsögu þegar varnarliðsmenn hafa gerst brotlegir við íslensk lög, þótt hann hafi óskað eftir því. Til að mynda í máli tveggja varnarliðsmanna sem voru dæmdir af íslenskum dómstól til refsingar fyrir samræði við stúlku undir lögaldri. Í þessu tilfelli taldi ráðuneytið hinsvegar eðlilegt að framselja manninn en ríkissaksóknari ekki. Það virðist hinsvegar vera að engar skýrar reglur liggi fyrir um hversu alvarleg brot þurfi að vera til að hafna beri framsali.

Fleiri fréttir af vef ruv.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024