Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarliðið þótti góður vinnuveitandi
Mánudagur 10. október 2016 kl. 06:00

Varnarliðið þótti góður vinnuveitandi

„Fyrir marga starfsmenn varnarliðsins var uppsögnin áfall,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis um lok starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli haustið 2006. Hann bendir á að sumir starfsmanna varnarliðsins hafi unnið þar nær alla sína tíð og því hafi uppsögnin ef til vill verið meira áfall fyrir þann hóp en aðra.

Hjá varnarliðinu störfuðu tæplega 600 manns í byrjun árs 2006 en hafði þá fækkað nokkuð, til að mynda voru þeir um 760 í árslok 2003. Þá eru ótaldir hundruðir starfsmanna hjá ýmsum verktakafyrirtækjum. Kristján segir áhrifin af veru varnarliðsins á atvinnulífið í nærsamfélaginu hafa verið mikil. „Hér voru þvottahús, veitingahús og ýmis þjónusta. Ég færi ekkert á límingunum þó að herinn kæmi aftur. Í því myndu felast atvinnutækifæri á Suðurnesjum enda var hann eins og stóriðja.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar tilkynnt var um brottför hersins í mars 2006 var á vegum stéttarfélaganna í Reykjanesbæ, í samvinnu við bæjarfélagið, haft samband við alla þá sem fengu uppsagnarbréf og boðin fram aðstoð við atvinnuleit. Þar fékk fólk til að mynda leiðbeiningar um gerð starfsferilskrár. Kristján segir það hafa aukið sjálfstraustið hjá mörgum að setja alla sína reynslu niður á blað; öll námskeið og réttindi sem það hafði öðlast. „Þetta hjálpaði fólki svo í atvinnuleitinni.“ Aðstoðin var óformleg og búin til á staðnum en Kristján segir hana engu að síður hafa gangast fólki.

Það orðspor fór af varnarliðinu að það væri góður vinnuveitandi og segir Kristján svo hafa verið enda eftirsótt að vinna þar. „Það þurfti aldrei að innheimta stéttarfélagsgjöld eða annað frá varnarliðinu fyrir dómstólum. Herinn fór í einu og öllu eftir samningum. Þar að auki greiddu þeir góð laun og hærri en almennt tíðkaðist á vinnumarkaði hér á Suðurnesjum.“ Þá segir Kristján að fólk sem vann hjá varnarliðinu hafi margt upplifað í fyrsta sinn að geta lifað af því að vinna átta stunda vinnudag en það þekktu fæstir. „Hjá varnarliðinu fékk fólk líka boðlegri vinnuaðstæður en víða annars staðar. TIl dæmis hvað varðaði hreinlæti og öryggismál. Það var því margt sem gerði varnarliðið að góðum vinnuveitanda og fólk talaði um muninn þegar það fór svo að vinna annars staðar eftir að herinn fór.“

Nokkrum árum áður en herinn fór var umræða á Suðurnesjum um að sú staða gæti komið upp. Kristján fór þá ásamt Jóhanni Geirdal, þáverandi formanni Verslunarmannafélags Suðurnesja, á fund Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra til að ræða um undirbúning ef til þess kæmi. Kristján segir fólk utan Suðurnesja almennt ekki hafa deilt áhyggjum þeirra. „Það var horft á okkur eins og við værum eitthvað skrítnir því brottför varnarliðsins þótti svo fjarstæðukennd.“ Hann segir að verkalýðsforkólfar um landið hafi heldur ekki haft mikla samúð með Suðurnesjamönnum þegar varnarliðið fór og að ríkið hafi ekki á neinn hátt veitt byggðaaðstoð til að takst á við atvinnumissi svo margra.

Kristján segir að þrátt fyrir allt þá hafi brottför varnarliðsins borið upp á góðum tíma því nokkur uppgangur hafi verið árið 2006. Flestir félagsmanna VSFK fengu því önnur störf fljótlega og segir hann að innan við tíu af þeim hafi verið í atvinnuleit um lengri tíma. „Þegar maður lítur um öxl sér maður hvað brottför hersins var risavaxið verkefni og líka hvað við fórum vel í gegnum það og ég er kátur með að ekki hafi farið verr.“ Þegar hrunið kom svo árið 2008 voru margir fyrrum starfsmenn varnarliðsins nýbyrjaðir í nýjum störfum og segir Kristján þann hóp hafa verið veikari fyrir en aðra. Margir hverjir höfðu skipt um vettvang og því ekki verið með langan starfstíma á nýja staðnum og því hafi hrunið ef til vill komið verr niður á einhverjum úr þeim hópi en ella.

Viðtalið var hluti af umfjöllun Víkurfrétta um brottför varnarliðsins fyrir áratug síðan.