Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarliðið: rúmlega hundrað manns sagt upp störfum
Þriðjudagur 11. nóvember 2003 kl. 11:08

Varnarliðið: rúmlega hundrað manns sagt upp störfum

Alls verður rúmlega 100 manns sagt upp störfum hjá Varnarliðinu um næstu mánaðarmót samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Þann 21. nóvember mun fyrirkomulag uppsagnanna liggja fyrir, en Varnarliðið dró 90 uppsagnir til baka fyrir helgina að kröfu verkalýðshreyfingarinnar þar sem því var haldið fram að uppsagnirnar væru ólöglegar. Í fréttatilkynningu frá Varnarliðinu frá því í síðustu viku kemur fram að Varnarliðið vilji að framkvæmd uppsagnanna verði hafið yfir allan vafa og að unnið verði í samráði við stéttarfélögin að uppsögnunum.

Í morgun fundaði starfsmannastjóri Varnarliðsins með fulltrúum stéttarfélaga á Suðurnesjum og vildu hvorki Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur né Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja tjá sig um efni fundarins. Þeir sögðu báðir að þeir væru bundnir trúnaði sem þeir virtu. Guðbrandur lét þó hafa eftir sér að þessi fundur yki ekki bjartsýni hans á stöðu mála.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024