Varnarliðið: Heilsufarsupplýsingar fara ekki til Bandaríkjanna
Bandaríkjamenn munu ekki hafa á brott með sér heilsufarsupplýsingar sem safnað hefur verið í herstöðinni á meðal íslenskra starfsmanna síðustu ár og áratugi. Þetta hafa Víkurfréttir eftir traustum heimildum. Fram hefur komið ótti á meðal starfsmanna varnarliðsins, núverandi og fyrrverandi, að upplýsingarnar færu í geymslur erlendis og yrðu síðan opinberaðar í framtíðinni.
Sama á við um launabókhald Varnarliðsins, það mun einnig verið skilið eftir í Varnarstöðinni þegar Varnarliðið kveður á laugardaginn. Þá taka íslensk stjórnvöld við lyklavöldum af herstöðinni og fá ráðstöfunarrétt yfir heilsufars- og launaupplýsingum starfsmanna Varnarliðsins.
Árum saman hafi mikill meirihluti starfsmanna varnarliðsins verið skyldaður til að mæta, einu sinni til tvisvar á ári, í rækilega læknisskoðun á herspítalann á Vellinum. Hversu oft menn hafi verið skoðaðir hafi ráðist af störfum þeirra; þeir sem sinnt hafi öryggismálum voru oftar skoðaðir en aðrir starfsmenn.