Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varðskip mun elta flutningaskipið sem aðstoðaði sjóræningjana
Laugardagur 28. maí 2005 kl. 10:31

Varðskip mun elta flutningaskipið sem aðstoðaði sjóræningjana

Varðskip verður sent á vettvang til að elta flutningaskip sem hefur verið að aðstoða svokallaða sjóræningjatogara á Reykjaneshrygg Áhöfn TF-SÝN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, sá sjö svokallaða sjóræningjatogara að karfaveiðum við 200 sjómílna lögsögumörkin suðvestur af Reykjanesi, og náði á mynd þegar flutningaskip tók við fiski úr einum togaranna. Varðskip verður sent á vettvang til að elta flutningaskipið til að sjá hvar það landar.

Þetta kemur fram á fréttasíðu Morgunblaðsins, mbl.is.

Sjóræningjatogararnir, sem ekki hafa leyfi til veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, voru þar að veiðum í hópi 60 erlendra úthafskarfatogara þegar vél Landhelgisgæslunnar flaug yfir.

Skipin eru skráð á eyjunni Dómíníku eða öðrum eyjum í Karíbahafinu, en þar sem þau voru utan við íslenska lögsögu er Landhelgisgæslunni ekki heimilt að taka skipin, segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Evrópusambandið, Noregur, Pólland, Rússland, Eistland, Grænland og Færeyjar eru aðilar að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu auk Íslands. Samkvæmt samþykktum ráðsins eru viðbrögð við því þegar veitt er án heimildar þær að skipum sem uppvís verða að því er neitað um alla fyrirgreiðslu í aðildarlöndunum að neyðaraðstoð undanskilinni.

Georg segir í samtali við Morgunblaðið að sjóræningjaveiðar af þessu tagi hafi tíðkast undanfarin ár, og hafi þær hafist í apríl í ár eins og undanfarin ár. Nú sé leyfislausu skipunum hinsvegar farið að fjölga hratt, snemma í apríl voru þau þrjú, en eru sjö núna. Flugvél Landhelgisgæslunnar hefur flogið nokkrum sinnum í viku yfir skipaflotann, en nú hefur í fyrsta skipti sést til þegar fiskur er fluttur milli skipa í flutningaskip.

Verður því varðskip sent á vettvang til að fylgja flutningaskipinu eftir til þar til ljóst er hvar það mun reyna að landa, og verður Landhelgisgæslan í samvinnu við eftirlitsskip annarra þjóða sem aðild eiga að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu. Þegar ljóst er hvar skipið ætlar að landa verður haft samband við yfirvöld í því landi og óskað eftir því að gripið verði til aðgerða, svo sem að selja skipinu ekki olíu, leyfa því ekki að landa, og neita þeim almennt um alla þjónustu aðra en neyðarþjónustu.

Fréttavefur Morgunblaðsins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024