Var Hannes Hafstein skyggn? spyr Hjálmar Árna
Hjálmar Árnason alþingismaður spyr í pistli á heimasíðu sinni hvort Hannes Hafstein hafi verið skyggn og birtir Hjálmar eitt erindi úr skemmtivísum sem Hannes Hafstein orti á sínum tíma. „Hvað um það eitt erindið fannst mér eiga nokkuð vel við nútímann - ekki síst í ljósi deilna um fjölmiðla,“ segir Hjálmar í pistli sínum á heimasíðu sinni.
VAR HANNES HAFSTEIN SKYGGN?
Að undanförnu hef ég verið að glugga í safn ljóða eftir Hannes Hafstein. Tilefnið er margþætt: Heimastjórnarhátíðin, almennur áhugi á ljóðum og undirbúningur að hátíðarræðu hjá Hrunamönnum þann 17. júní.
Hannes var sannarlega mikill stjórnmálamaður eins og um hefur verið fjallað. Þá var hann prýðis gott skáld og mörg ljóða hans unaðslegar perlur. Í morgun rakst ég á einar 15 skemmtivísur Hannesar þar sem hann leikur sér með yrkisefnið þerripappír (fyrirbrigði lítt notuðu nú á tölvuöld en gegndi mikilvægu hlutverki á tímum blekpenna). Hvað um það eitt erindið fannst mér eiga nokkuð vel við nútímann - ekki síst í ljósi deilna um fjölmiðla:
„Ég á blaðið.“ „Sei,sei,sei.“
„Svei mér þá.“
„Víst á ég það." "Nei,nei,nei."
"Nei.“ „Jú.“ „Á.“
Þannig rifust þegnar tveir
um þerriblað,
brýnt því þurftu báðir tveir
að brúka það.
Ekki ætla ég að leggja í djúpar ljóðaskýringar á þessum vettvangi en læt lesendum eftir greininguna. Spyrja má hins vegar hvort Hannes Hafstein hafi verið skyggn og séð hundrað ár fram í tímann.
Vefsíða Hjálmars Árnasonar.