Vantar tvo milljarða eingöngu til að standa í skilum
Reykjaneshöfn vantar tvo milljarða á næstu 15 mánuðum eingöngu til að standa í skilum. Þá er ótalið það fé sem sem vantar til að standa undir framkvæmdum. Þetta kom fram í máli Friðjóns Einarssonar, bæjarfulltrúa Samfylkingar, á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn. Málefni hafnarinnar voru þar til umræðu en fjárhagsstaða hennar er slæm. Um næstu mánaðamót er gjalddagi á um 100 milljóna króna láni til hafnarinnar. Bæjarstjóri segir unnið að því að semja við lánadrottna.
Atvinnu- og hafnarráð hefur samþykkt að leita samninga við Capacent um stefnumótun fyrir Reykjaneshöfn. Friðjón Einarsson sagðist ekki skilja þá ráðstöfun. „Ég hefði frekar viljað að við settum saman vinnuhóp bæjarráðsmanna og hafnarinnar til að vinna þetta almennilega og gera okkur grein fyrir þeirri stöðu sem þarna er komin upp. Vanskilin eru gríðarleg og það er ljóst að okkur vantar um tvo milljarða á næstu 15 mánuðum, bara til að standa í skilum, ekki í framkvæmdir heldur eingöngu til að standa í skilum,“ sagði Friðjón.
Hann vitnaði í fyrri skýrslu Capacent fyrir Reykjanesbæ þar sem settir voru ýmsir fyrirvarar við vinnu fyrirtækisins. Þær kæmi m.a. fram að Capacent ábyrgist ekki nákvæmni eða áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fram kæmu í skýrslunni. Capacent hefði ekki nema að takmörkuðum hluta leitað staðfestingar á þeim upplýsingum og forsendum sem skýrslan byggðist á.
„Ef við ætlum að ráða Capacent í þetta vil ég ekki sjá svona fyrirvara því það skiptir þá engu máli hvað stendur í þessari skýrslu,“ sagði Friðjón.
Eins og greint hefur verið frá beitti Kauphöllin Reykjaneshöfn févíti á dögunum upp á 1,5 milljónir króna þar sem höfnin var talin hafa brotið reglur Kauphallarinnar. Gjaldfallið lán hafði ekki verið tilkynnt með þeim hætti sem ber að gera á skuldabréfum sem skráð eru í Kauphöllinni.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði févíti alvarlegt mál því það kostaði Reykjaneshöfn upphæðir sem hún hefði engin efni á.
„Það er auðvitað mjög æskilegt að stjórnendur og stjórn hafnarinnar fylgist vel með málum og að þetta gerist ekki svona…þetta gerist ekki svona ef menn þekkja aðferðir Kauphallarinnar og þær reglur sem þar gilda, þá þarf þetta ekki að gerast aftur. Við ætlumst til þess að þetta gerist ekki aftur,“ sagði Árni.
Árni vék máli sínu að tækifærum og möguleikum hafnarinnar. Spurningum þyrfti að svara þess efnis hvert Reykjaneshöfn ætti að stefna, hvaða starfsemi ætti að vera í höfninni og hver aðild bæjarins ætti að vera. Spyrja þyrfti hvort bæjarfélagið hefði bolmagn til að reka Reykjaneshöfn eins og hún er rekin í dag, hvort fá ætti fleiri aðila að rekstrinum, leiga út ákveðna þætti eða jafnvel selja.
„Til þess að svara slíkum spurningum þurfi að setja þær upp á skilmerkilegan hátt með kosti og galla hverrar leiðar sem til greina kæmi að fara. Því er eðlilegt og ég fagna því að höfnin sé að fá aðstoð í því verkefni,“ sagði Árni. Hann sagði tilvitnun Friðjóns í fyrirvara Capacent-skýrslunnar þekkta. Um væri að ræða venjulegar klausur í skýrslum. „Við höfum enga þörf fyrir skýrslu af þeim toga sem Friðjón var að lesa upp úr,“ sagði Árni. Hann sagði að fyrst og fremst væri verið að fá ráðgefandi aðila sem kynnu til verka. Máli skipti að fara yfir fjármál hafnarinnar og leita leiða til að koma þeim í lag.
Friðjón tók aftur til máls og sagðist ekki gera lítið úr mikilvægi stefnumótunar. „En maður hlýtur að líta til baka og spyrja hvort það hafi ekki verið nein stefnumótun í gangi hjá höfninni undanfarin ár. Það er ekki að sjá miðað við fjárhagsstöðu hafnarinnar. Svo hef ég líka heyrt að þessi aðstoð hjá Capacent sé ætluð til að aðstoða hafnarstjóra í viðskiptum hans við lánastofnanir en ekki við stefnumótum um framtíð hafnarinnar,“ sagði Friðjón.
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, sagði að í ljósi umræðunnar væri hollt að spyrja sig sömu spurningar og varðandi Víkingaheima, þ.e. af hverju bæjarfélagið ætti að koma að þessum rekstri.
„Er það bara á taptímabilinu, þ.e. uppbyggingatímabilinu, sem Reykjanesbær á að koma að rekstrinum og selja síðan fyrirtækin sem verða þá farin að skila einhverri viðbót,“ spurði Kristinn. Hann vék máli sínu að févítinu og sagði þá spurningu læðast að sér hvort það hafi verið feluleikur eða viljandi gleymska að tilkynna ekki til Kauphallarinnar. Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem höfnin væri beitt févíti. Benti Kristinn á að um næstu mánaðamót væru háar greiðslur á gjalddaga. „Er búið að tilkynna það til Kauphallar hvort við náum því eða ekki. Er hætta á öðru févíti eftir næstu mánaðamót?“ spurði Kristinn.
„Ég hef beint sömu spurningum til hafnarinnar. Hef fengið þau svör að menn séu að vinna í því að leysa þessi mál. Menn eru að vinna í því að semja við lánadrottna og það er auðvitað vonandi að það takist. Ef að það tekst ekki þá hafa menn tækifæri til að tilkynna það til Kauphallar þannig að ekki verði beitt févíti að nýju,“ svaraði Árni Sigfússon.