Vantar meira fé til að viðhalda gatnakerfinu í Reykjanesbæ
Nýtt malbik hefur verið lagt yfir um sex kílómetra af götum Reykjanesbæjar í sumar. Götur eru ekki einungis metnar úr frá hjólförum eða sjón, heldur ástand yfirborðs. Þegar farnar eru að myndast sprungur í yfirborðið er sutt í að götur hreinlega eyðileggist sem veldur mun meiri kostnaði við viðhald.
„Sumsstaðar erum við einnig að fræsa upp eldra malbik þar sem þess er þörf. Við höfum haft um 120 milljónir í yfirlagnir á ári en það dugir enganvegin til að halda við vegakerfinu svo vel sé. Við erum klárir með yfirlagnapakka upp á annað eins, sex til sjö kílómetra, en þurfum að meta stöðu fjármagns nú í haust hvort við komumst í meira í ár,“ segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar.
Gatnakerfi Reykjanesbæjar er um 160 km og fer stækkandi.
„Við þyrftum að komast yfir um 15 til 20 kílómetra á ári svo vel sé til að viðhalda götum bæjarins. Mjög misjafnt er hver líftími yfirborðs gatna er, en það fer eftir umferð og álagi. Við höfum reynt að forgangsraða götum eins og kostur er og oft þarf að bíða með yfirlagnir á götum sem nauðsynlegt er að fara í þar sem þörf er á að skipta út fráveitulögnum áður en farið er í yfirlagnir.
Við höfum einmitt farið í stórátak undanfarin ár að mynda lagnir, fóðra þær ef þess er kostur en í versta falli fara þær á útskipti-lista og þá þarf að bíða með yfirlangir á þeim götum,“ segir Guðlaugur Helgi.