Vantar „hendur og fætur“ fyrir Frikka
„Ég sá þetta í Ástralíu þar sem ekki er pláss til að setja út fasta rampa vegna þess að stéttir fyrir utan verslanir og fyrirtæki eru þröngar. Þar eru þeir með rampa inni sem notaðir eru bara rétt á meðan á þarf að halda,“ segir Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, sem hefur hrundið af stað verkefni í samstarfi við Öryggismiðstöðina, að selja færanlega rampa með aukabúnaði til þess að bæta aðgengi hjá fyrirtækum og stofnunum.
„Við útbjuggum spjaldið með bjöllunni, með íslenskum og enskum leiðbeiningum og réðum Friðrik Guðmundsson, sem sjálfur er bundinn hjólastól, í hlutastarf við að selja þessa heildarlausn. Okkur vantar bara manneskju með honum til að setja búnaðinn upp, hendur og fætur fyrir Frikka, sem mun svo prófa hvort allt virki ekki eins og það á að gera.“
Stefnt á að fara víða um land
Um er nokkrar stærðir af römpum, það fer eftir því hver hæðarmunurinn er. Það er sama breiddin á þeim en lengdin er misjöfn. „Fasta verðið sem við ætlum að bjóða er á milli 25 og 30 þúsund og svo rampurinn í viðbót. Alltaf sami búnaðurinn og uppsetningin,“ segir Guðjón og bætir við að starfsmaður muni einnig byrja í Reykjavík á sama tíma og Friðrik.
„Þegar Frikki verður búinn að þurrausa Suðurnesin, þá er bara stefnt á að halda áfram, t.d. á Akranesi, Borgarnesi eða Ísafirði, jafnvel víðar um höfuðborgarsvæðið. Bara landið og miðin.“
Vantar hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu
Aðspurður segir Guðjón ástæðu verkefnisins vera í raun blöndu af tvennu.
„Arnar Helgi Lárusson hefur verið ötull við að vekja athygli á slæmu aðgengi fyrir fatlaða á Suðurnesjum og við viljum því sýna fram á að þessar lausnir eru til. Svo vantar líka störf fyrir einstaklinga sem ekki geta unnið fulla vinnu; störf sem þrír eða fjórir gætu skipt með sér. Ef markaðurinn er svoleiðis þá getum við skapað hlutastörf. Því viljum við koma þessu af stað.“ Einnig muni þetta hafa hafa mögulegar aukaverkanir eins og að vekja fólk til meiri meðvitundar um mikilvægi aðgengis.
„Fólk mun vera vart við það þegar Friðrik fer á milli staða. Það veldur svo mikilli einangrun að hafa ekki nægt aðgengi. Sumir gefast bara upp, fara eitthvað annað en þá langar að fara eða hanga heima í tölvunni. Að sjálfsögðu eru varanlegar lausnir bestar en þetta er allavega lausn.“
Fyrirtæki á Suðurnesjum munu í sumar vera vör við bréflega orðsendingu um að einnhvern næstu daga á eftir muni Friðrik og væntanlegur samstarfsmaður heimsækja þau og bjóðast til að fara yfir aðgengi að húsnæði þeirra, skoða hvaða lausnir gætu hentað. Ef þeim svo líst vel á verður hægt að leysa málið á einfaldan hátt, öllum til hagsbóta.
Allar nánari upplýsingar veitir Guðjón í netfanginu [email protected] eða í síma: 565 5727 og GSM: 823 7270.