Vann til silfurverðlauna í alþjóðlegri matreiðslukeppni
Keflvíkingurinn Svanur Már Scheving náði prýðisárangri á samkeppni matreiðslu og bakaranema á árlega ráðstefnu Samtaka hótel-, ferðamála- og matvælagreina í Evrópu. Ráðstefnan var haldin í Bled í Slóveníu um helgina og var þetta í 17. sinn sem hún er haldin. alls voru um 350 keppendur frá 37 löndum sem tóku þátt.
Svanur, sem er að ljúka bakaranámi við Menntaskólann í Kópavogi á næstunni og vinnur í Nýja Bakarí á Hafnargötu, vann til silfurverðlauna í eftirréttagerð. Liðsfélagi hans var ítölsk stúlka. „Það var ekki keppt eftir löndum heldur vorum við dregin út í tveggja manna lið. Hver keppandi var búinn að setja upp þrjá rétti áður en haldið var út, en svo fínpússuðum við þetta saman,“ sagði Svanur í samtali við Víkurfréttir.
Réttirnir sem voru framreiddir áttu að vera í samræmi við aðalþema ráðstefnunnar, kotasælu og hunang. Réttir Svans og liðsfélaga hans voru í fyrst lagi hunangsís á Créme Bruleé, sem er réttur Svans, í öðru lagi „kotasæluhvelfing“ sem stúlkan kom með og í þriðja lagi Frauðdúett með hunangssósu.
„Þetta var virkilega ögrandi og skemmtilegt og kennararnir voru virkilega ánægðir með hvernig til tókst,“ sagði Svanur og bætti því við að mótið hafi verið gott tækifæri til að skapa sér nafn í þessum geira. „Ég lít á árangurinn sem mikla hvatningu. Ég er búinn að vera að læra í fimm ár í MK og líkar mjög vel. Aðstaðan er öll hin glæsilegasta og hafa meðal annars komið menn erlendis frá til að kynna sér starfsemina. Eftir árangurinn sem íslenska kokkalandsliðið hefur verið að ná á mótum úti í heimi er mikill áhugi á að skoða hvernig námið hér er byggt upp.“
Að lokum vill Svanur hvetja alla sem hafa áhuga að kynna sér námið í MK og bendir á Marsdaga sem eru haldnir ár hvert til að kynna námið.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Svanur ásamt dóttur sinni, Agnesi Maríu, sýnir silfurpeningin esm hann vann í Bled