Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vallarheiði: Góðar hugmyndir fá þak yfir höfuðið
Þriðjudagur 25. nóvember 2008 kl. 07:51

Vallarheiði: Góðar hugmyndir fá þak yfir höfuðið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrstu fyrirtækin í nýju frumkvöðlasetri í Eldey á Vallarheiði eru að koma sér fyrir þessa dagana. Um tugur sprotafyrirtækja og frumkvöðla hafa fengið aðstöðu í byggingu 506 í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Frumkvöðlasetrið er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Háskóla Íslands og Keilis. Það er Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem er rekstrarstjóri Frumkvöðlasetursins í Eldey. Víkurfréttir tóku hús á Sigríði aog ræddu við hana um frumkvöðlastarfið sem nú er að stíga sín fyrstu skref á Vallarheiði.

Hugmynd að veruleika
Hugmyndin að Frumkvöðlasetrinu í Eldey á Keflavíkurflugvelli kviknaði fyrst á göngum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir um það bil ári síðan þegar Sigríður Ingvarsdóttir, Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri NMÍ og Hjálmar Árnason hjá Keili voru að ræða málin. Að sögn Sigríðar fór boltinn fljótlega að rúlla mjög hratt. Öllum leyst strax vel á að byggja upp slíkt setur á Keflavíkurflugvelli sem gæti verið nokkurs konar útungunarstöð fyrir atvinnulífið á svæðinu. Sigríður segir þau hafa haft augastað á ákveðnu húsnæði á Keflavíkurflugvelli, sem myndi henta ákaflega vel fyrir frumkvöðlasetrið. Bæði eru í húsinu stórar og fínar skrifstofueiningar, en einnig smiðjur og verkstæði á jarðhæð.
„Þar sem bæði orkuskólinn er hér staðsettur og námið hjá Keili, þá fer mjög vel á því að reka setur sem þetta í svona gróskumiklu umhverfi. Hingað hafa mikið til valist inn fyrirtæki tengd orkugeiranum og nýjungum á þeim sviðum,“ segir Sigríður.
 
 - Eru sérstakar ástæður fyrir því?
„Það er mikil vakning nú í nýsköpun almennt. Áberandi vöxtur hefur orðið á tveimur sviðum, það er annars vegar nýsköpun tengd orkuiðnaðinum og einnig nýsköpun tengd heilbrigðissviði. Eins eru fjölmargar aðrar áhugaverðar hugmyndir að koma fram og ég tel að þekkingariðnaðurinn í heild eigi eftir að skapa okkur mikil tækifæri í framtíðinni. Aðsóknin í Eldey hefur farið fram úr björtustu vonum. Fyrstu rekstraráætlanir okkar gengu út á að hér myndu byrja tvö til þrjú fyrirtæki þegar við opnuðum. Hins vegar kom strax í ljós mikill áhugi hjá flottum frumkvöðlum sem voru langt gengnir með sínar viðskiptahugmyndir.
Miðað við þær aðstæður sem hafa skapast núna í þjóðfélaginu, þá erum við algjörlega á réttum tíma með þessa starfsemi. Sagan hefur sýnt að nýsköpun blómstrar alltaf í kreppuástandi. Við eigum að hlúa meira að því sem við getum byggt upp hér heima og við höfum fjölda ónýttra tækifæra“.
 
Mikill velvilji KADECO
Sigríður er ánægð með þær móttökur sem verkefnið hefur fengið hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar (KADECO).
„Við höfum notið ákaflega mikils velvilja frá KADECO og án þeirra hefðum við aldrei getað farið út í þetta verkefni. Við gerðum samning við KADECO um þetta húsnæði til þriggja ára og það hefur verið alveg sérlega gott að vinna með þeim og við hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands bindum miklar vonir við frekara samstarf við félagið“.
 
- Eru miklir fjármunir á bakvið þetta verkefni?
„Nei, það eru ekki miklir fjármunir. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hafa hjálpast að við að koma Eldey á laggirnar og gætt hefur verið aðhalds við þær framkvæmdir sem til þurfti.  Þegar kemur að fjármögnun fyrir frumkvöðla- og sprotafyrirtækju þá gengur það misvel. Þær góðu hugmyndir, sem við viljum öll að verði að veruleika og þjóðarbúið muni njóta góðs af þurfa á fjárfestum og fjárhagslegum stuðningi að halda. Fjármagn vantar oft í upphafi og þess vegna er gott að geta komið svona verkefnum á laggirnar ákaflega hagstætt. Því bjóðum við frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum aðstöðu og aðstoð fyrir afar hagstæða leigu. Ég hvet aðila á Suðurnesjum til að koma að uppbyggingu verkefna sem geta haft veruleg áhrif í framtíðinni“.
 
- Þið leggið þessum fyrirtækjum til ýmsa ráðgjöf og aðstoð.
„Það hefur sýnt sig að það eru ekki alltaf bestu viðskiptahugmyndirnar sem komast á legg, heldur þar sem þekking er til staðar til þess að byggja upp rekstur í kringum þær. Þar komum við hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands með okkar þekkingu, sambönd og aðstoð við frumkvöðla við að byggja markvisst upp reksturinn á faglegan hátt. Við bendum t.d. á leiðir við fjármögnun, hvar hægt er að ná í styrki og aðstoðum við styrkumsóknir. Við bendum á samstarf og samstarfsaðila, bæði innlenda og erlenda. Við aðstoðum við tækniyfirfærslur í gegnum evrópskan gagnagrunn og aðstoðum við hvaðeina er lýtur að stofnun og rekstri fyrirtækja. Við leitumst við að styðja við bakið á frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum allt frá hugmyndum til hagnaðar.“.
 
- Hvað geta frumkvöðlar eða sprotafyrirtæki verið lengi með aðsetur í Eldey?
„Við erum ekki með neitt þak í þeim efnum. Við gerum samninga við fyrirtæki til þriggja mánaða í upphafi sem síðan má framlengja. Við hendum ekki fyrirtækjum út eftir einhvern ákveðinn tíma ef þau eru að vinna markvisst að sínum viðskiptahugmyndum. Það er svo mismunandi hversu langan tíma fyrirtæki þurfa til að komast á legg. Ef við tökum sem dæmi nokkur fyrirtæki sem við þekkjum vel, Össur, Marel og Actavis, þá var þróunarferlið hjá þessum fyrirtækjum á bilinu 10-14 ár.
Það hefur skort hér þolinmótt fjármagn og þolinmæði í kerfinu til þess að hjálpa sprotafyrirtækjum að komast á legg“.
 
Atvinnuleysistryggingasjóður leggur til störf
Eins og nýlega koma fram í máli iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar þá er það að verða að veruleika vegna þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu að stjórnvöld ætla að grípa til þess ráðs til þess að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og snúist jafnvel hraðar, að sprotafyrirtæki og fyrirtæki sem eru að fara í nýsköpun eða vöruþróun, geta fengið svokallaða vottun á þessar hugmyndir og ráðið til sín starfsfólk sem misst hefur vinnuna með meðgjöf frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við stjórnvöld mun sjá um útfærslu.
 
Fleiri frumkvöðlar komist undir þak
Átta til níu fyrirtækjum hefur verið lofað aðstöðu í Eldey og byggja aðstandendur Frumkvöðlasetursins miklar vonir við þau. „Við eigum smá pláss laust ef fólk er með góðar hugmyndir, þá er um að gera að setja sig í samband við Nýsköpunarmiðstöð Íslands,“ segir Sigríður.
Mörg þeirra fyrirtækja sem eru að koma sér fyrir í Eldey munu nýta sér smiðjurnar á jarðhæð hússins. Þá er það til alvarlegrar skoðunar að stækka verkefnið enn frekar, í samvinnu við Kadeco, þar sem bæði aðstæður í þjóðfélaginu kalli á slíkt og til er mikið af húsnæði á Keflavíkurflugvelli sem henti vel fyrir frumkvöðla- og sprotafyrirtæki.
„Við höfum þegar hafið viðræður við KADECO um málið og vonumst til að geta tekið fleiri fyrirtæki inn og ekki veitir af í því ástandi sem nú ríkir. Það hefur einnig háð sprotafyrirtækjum á góðæristímum að geta ekki fengið til sín mannafl. Nú er að losna um mikinn mannauð í íslensku þjóðfélagi og þurfum við að skapa honum tækifæri til uppbyggingar á nýjum sviðum. Tilfærsla á þessum mannauði til sprotafyrirtækja getur leyst úr læðingi öfluga sókn og atvinnusköpun. „Ég trúi því að við eigum eftir að sjá mikla aukningu í nýsköpun á næstunni og þar er ég bæði að tala um ný fyrirtæki og nýsköpun og vöruþróun innan starfandi fyrirtækja. Allar aðstæður eru að breytast mikið, s.s. vegna gengis krónunnar. Nú þurfum við að fara að hugsa upp á nýtt, hvað eru gjaldeyrissparandi aðgerðir, hvar eru gjaldeyristekjur, hverju getum við sinnt betur hér innanlands. Hvernig getum við stuðlað betur að öryggi þjóðarinnar þá er ég ekki að tala um hernaðarlegt öryggi heldur t.d. fæðuöryggi og orkuöryggi. Í fyrri heimskreppum hefur fólk upplifað bág kjör vegna skorts á kyndingu og fæðu og það viljum við að sjálfsögðu ekki upplifa aftur. Við þurfum í raun að hugsa hlutina alveg upp á nýtt. Þórbergur Þórðarson sagði eitt sinn að ,,megnið af volæði veraldar stafaði af skorti á ímyndunarafli”. Ég tel að íslenska þjóðin hafi frjótt ímyndunarafl og drifkraft til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd og samstillt munum við vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem að okkur steðja nú.“ sagði Sigríður Ingvarsdóttir rekstrarstjóri Frumkvöðlasetursins á Vallarheiði í samtali við Víkurfréttir.
 
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson – [email protected]