Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Valgerður var grúppía Hljóma
Fimmtudagur 26. maí 2005 kl. 11:21

Valgerður var grúppía Hljóma

Viðskipta- og iðnaðarráðherrann, Valgerður Sverrisdóttir sýndi á sér nýja hlið í gær þegar hún afhenti Rúnari Júlíussyni, söngvara og bassaleikara Hljóma, úrklippubók sem hún hafði útbúið á unglingsárunum.

Bókin var full af myndum, dagblaðaúrklippum og eiginhandaáritunum þeirra Hljómamanna. Bókin góða verður nú varðveitt hjá listasafni Reykjanesbæjar í Duus húsum og mun hún fá heiðurssæti í nýrri sýningu sem opnuð verður 17. júní. Þar verður tónlistarsaga Reykjanesbæjar sögð í máli og myndum.

„Þegar ég var yngri beið ég stundum fyrir utan hljóðverið ykkar og tónleikastaði og ef mér tókst að sjá glitta í ykkur var deginum bjargað,“ sagði Valgerður. „Aldrei hafði mér dottið í hug að ég ætti eftir að afhenda þér þessa bók þegar ég var 15 ára,“ sagði hún að lokum. Rúnar færði Valgerði á móti nýjasta geisladisk sinn, til merkis um að hann væri enn að. Ekki þurfti hún að biðja um eiginhandaráritun í þetta sinn, Rúnar hafði séð til þess að rita nokkur orð til hennar.

„Ekki hefði mig nú grunað hana, Valgerði, að vera aðdáanda okkar,“ sagði Rúnar þegar hann tók á móti bókinni. „Hvað þá að hún skildi hafa geymt bókina í öll þessi ár!“ sagði Rúnar og bætti við að það væri gaman að vita að aðdáendur hljómsveitarinnar hugsuðu til þeirra með þessum hætti, enn þann dag í dag.

VF-mynd/Margrét

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024