Útsvar lækkar í Reykjanesbæ
„Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 ber þess merki að sveitarfélagið þarf að undirgangast skilyrði aðlögunaráætlunar um framlegð og lækkun skuldahlutfalls. Þessi aðlögunaráætlun er í gildi til 2022 og mikilvægt að eftir henni sé farið, til þess að Reykjanesbæ öðlist á ný það fjárhagslega sem nauðsynlegt er og geti veitt þá þjónustu sem ætlast er til. Mikil íbúafjölgun hefur reynt á sveitarfélagið sem hefur lögbundnar skyldur þrátt fyrir erfiða fjárhagslega stöðu. Þrátt fyrir þessar áskoranir þá koma ýmis mikilvæg atriði fram í þessari fjárhagsáætlun sem hafa munu jákvæð áhrif á hag íbúa á næsta ári“. Þetta segir í bókun meirihlutans í Reykjanesbæ vegna fjárhagsáætlunar sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Þá fór fram fyrri umræða um áætlunina.
Í bókuninni segir jafnframt:
Útsvar lækkar
Frá 1. janúar mun útsvar verða lækkað úr 15,05% í 14,52% eins og meirihluti bæjarstjórnar hafði boðað. Með því að greiða hærra útsvar hafa íbúar lagt sitt að mörkum til að gera sveitarfélaginu kleift að ná því markmiði að skuldir verði innan lögboðinna marka í lok ársins 2022. Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um að lækka fasteignaskatt úr 0,5% í 0,48% til þess að minnka álögur á íbúa vegna þeirrar hækkunar á fasteignamati sem orðin er.
Staðið við stuðning við fjölskyldur
Til þess að standa við þann málefnasamning sem núverandi meirihlutasamstarf byggir á eru hvatagreiðslur hækkaðar. Þær voru kr. 7.000.- í upphafi kjörtímabils, hafa hækkað um kr. 7.000 á ári og verða nú kr. 28.000.-. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að hækka þjálfarastyrki til íþróttafélaga um kr. 6.000.000.- til þess auðvelda þeim að ráða til sín menntaða þjálfara og styrkja það forvarnarstarf sem unnið er af hálfu íþróttafélaganna. Þá verða einnig veittir fjármunir til þess að taka á leigu húsnæði sem hýsa mun allar bardagaíþróttir á einum stað. Þá var einnig ýmsum velferðarmálum hrint af stað á þessu ári s.s. afsláttur systkina milli skólastiga og gjaldfrjáls ritföng í skólum.
Staðið við fyrirheit
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lítur svo á að með þessari fjárhagsáætlun sem er sú síðasta á þessu kjörtímabili hafi verið staðið við öll þau fyrirheit sem gefin voru í málefnasamningi núverandi meirihluta. Við erum að horfa fram á bjartari tíma en við þurftum að horfast í augu við árið 2014 og því mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð sem farin hefur verið undangengin ár. Meirihlutinn vill þakka starfsmönnum sveitarfélagsins og öðrum bæjarfulltrúum fyrir samstarfið við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.